144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[23:37]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil sannfæra hv. þm. Ögmund Jónasson um að ég hef ekki umpólast að einu eða neinu leyti og það er margt sem ég var hv. þingmanni sammála um, eins og t.d. að auðvitað skipti öllu máli að þjóðin fái að ráða. Það var akkúrat það sem fyrir mönnum vakti á sínum tíma, að þjóðin fengi að greiða atkvæði um þann samning sem menn kæmu með heim. Um það fjallaði þingsályktunartillagan, svo það liggi algerlega skýrt fyrir.

Ég er honum líka hjartanlega sammála um að mikil ósamkvæmni sé hjá ýmsum þeim sem hér hafa talað og lagst gegn því að sú tillaga sem er til umræðu yrði samþykkt þegar horft er til þess að á sínum tíma voru viðkomandi þingmenn, sem nú eru í stjórnarliði, þess mjög fýsandi. Ég er sammála honum um það. Sömuleiðis er ég sammála honum um að umsóknin gangi ekki út á það að fá undanþágu. Hv. þingmaður hefur aldrei heyrt mig tala um að það þurfi einhverjar sérstakar undanþágur. Hann veit að það eru aðrar leiðir sem ég vil fara til þess og þarf ekki að rifja upp fyrir honum þá sérstöðu sem Ísland hefur gagnvart sjávarútvegsmálum. Ég tel að á grundvelli þeirrar sérstöðu sé hægt að fá sérlausnir, með vísan til margra hluta sem ég ætla ekki að fara út í hér. Hins vegar er ég honum algerlega ósammála um að ekki sé fordæmi fyrir undanþágum. Um leið og ég er honum sammála um að ég tel ekki að fara þurfi leið undanþágnanna er það einfaldlega þannig að það eru sennilega á fjórða tug undanþágna sem varða landbúnað og alveg eins og var reifað af einum af flokksfélögum hv. þingmanns í ákaflega góðri ræðu um það fyrr í kvöld eru þess mörg dæmi. Þær eru mismiklar. Sumar eru mjög stórar, t.d. þær sem varða heimskautalandbúnaðinn í Finnlandi.

Þetta vildi ég algerlega slá í gadda frá mínum bæjardyrum séð. Einnig hafna ég því algerlega, (Forseti hringir.) sem sá ráðherra sem fór með þessi mál á sínum tíma, að þetta hafi verið eitthvert aðlögunarferli. Þá spyr ég hv. þm. Ögmund Jónasson: Hvaða lögum var breytt til að aðlaga Ísland að þessu umsóknarferli?