144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[23:53]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hafi hitt naglann á höfuðið þegar hún sagði að við værum náttúrlega að laga okkur öllum stundum að Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn. Sum okkar hafa haft efasemdir og áhyggjur af því hve langt við erum að ganga í þeim efnum. Ég horfi þar til dæmis til skipulagningar orkugeirans. Ég hef haft áhyggjur af því sem er að gerast innan velferðarkerfisins. Í síðustu ríkisstjórn náðum við því reyndar að setja inn fyrirvara gagnvart þjónustutilskipun Evrópusambandsins sem snýr að einkavæðingu í velferðarkerfunum innan heilbrigðisstofnana og ég vil hvetja til þess að við förum að rýna miklu betur í þessa þætti.

Núna er uppi í fjölmiðlum tölfræðileg umræða. Menn hafa gríðarlegar áhyggjur af því að Ísland sé ekki að sinna skyldum sínum gagnvart EES-samningnum. Ég hefði gaman af að sjá tölfræðilega samantekt á því hvernig Evrópusambandsríkjunum sjálfum gengur að laga sig að tilskipunum sem koma frá Brussel og menn hætti að einblína bara á Noreg og Ísland og Liechtenstein og fari að horfa til Portúgals, Spánar, Grikklands, Bretlands, Frakklands um slíkan samanburð. En í stað þess að ræða þessi mál í prósentum og tölfræði þá eigum við að fara að rýna inn á við og horfa á inntakið, hvað hér hefur gerst í orkumálunum, í velferðarmálunum, varðandi réttindi launafólks o.s.frv.