144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Nú heyrum við fréttir þess efnis að á aðalfundi HB Granda hafi sú ákvörðun verið tekin að hækka stjórnarlaun um 33,3%. Þessar hækkanir skila stjórnarmönnum frá 50 þúsundum upp í 100 þúsund í auknar tekjur á mánuði. Þessar hækkanir gerast á sama tíma og landverkafólk HB Granda greiðir atkvæði um verkfallsaðgerðir þar sem því stendur til boða 3,3% launahækkun. Sú prósentuhækkun mundi skila 6–7 þús. kr. í hækkun á mánuði. Svigrúmið hefur hingað til ekki verið talið vera meira því að meiri hækkun gæti, samkvæmt Samtökum atvinnulífsins, ógnað stöðugleika.

Þegar horft er á þessar samanburðartölur, þ.e. boðun 3,3% launahækkunar til landverkafólksins og ákvörðun um 33,3% til stjórnarmanna, dettur manni aðeins eitt í hug: Var komman færð á vitlausan stað eða hvað átti sér eiginlega stað? Er hér verið að samþykkja að aðrir starfsmenn fyrirtækisins fái sömu launahækkanir? Eða gilda ekki sömu viðmið um launahækkanir fyrir verkafólk og toppa hjá fyrirtækjum?

Þessi ákvörðun hefur framkallað mikla og skiljanlega reiði hjá landverkafólki fyrirtækisins. Þetta virðist hleypa mun meiri hörku í samningaviðræðurnar og skal engan undra. Erfitt getur verið að átta sig á hvers vegna það virðist vera í lagi að veita ákveðnum hópi tíu sinnum meiri launahækkanir en eru í boði fyrir aðra hópa. Af hverju ógna þessar hækkanir ekki stöðugleika í landinu en allt ætlar um koll að keyra þegar talað er um alvöruhækkanir fyrir lægstu hópana, sérstaklega hjá þeim fyrirtækjum þar sem svigrúmið virðist svo sannarlega vera til staðar?

Ég get ekki orða bundist og ég verð að vitna í titil á lagi sem samið hefur verið hjá starfsmönnum HB Granda vegna kjarabaráttunnar og heitir Sveiattan.