144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Undir liðnum störf þingsins fyrr í þessari viku ræddum við, fleiri en einn og fleiri en tveir, um flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Ég vil horfa á flugvöllinn í Vatnsmýrinni sem samgönguæð og ég velti fyrir mér hvað eigi að ráða för þegar hann er annars vegar. Ég vil jafnframt láta þess getið að ég er þeirrar skoðunar að virða eigi skipulagsvald sveitarfélaga. Það er hins vegar spurning þegar kemur að flugvellinum í Vatnsmýri hvort vegi þyngra hagsmunir Reykjavíkurborgar, hagsmunir Valsmanna ehf. eða hagsmunir þjóðar. Ef við stöndum frammi fyrir því að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni höfum við ekki hér annan varaflugvöll fyrir millilandaflug nema á Egilsstöðum og/eða Akureyri. Flug vestan frá Ameríku nýtir sér ekki þá flugvelli ef ekki er hægt að lenda í Keflavík. Það er algjörlega kristaltært. Þar með erum við að stefna, ef svo fer sem horfir, í það minnsta þeirri flugáætlun í uppnám.

Fyrir utan það er glapræði að ætla að velta því fyrir sér að fari flugvöllurinn úr Vatnsmýrinni séum við að leita að stað á höfuðborgarsvæðinu til að setja hundruð milljóna í nýjan flugvöll. (Gripið fram í: Milljarða.) Milljarða. Við erum ekki að því. Þá er innanlandsflugið farið til Keflavíkur. Það er eins gott að við höfum þessar (Forseti hringir.) staðreyndir á hreinu.