144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hér hafa talað og fordæmt það sem var að gerast hjá HB Granda, þ.e. að hækka stjórnarlaun þar um 33% á sama tíma og fiskvinnslufólki eru boðin 3,3%. En ég vil vekja athygli stjórnarþingmanna á því að hér á eftir á að ræða makrílfrumvarp þar sem makríllinn er færður í aflahlutdeild og þá er verið að færa viðkomandi fyrirtæki 15–20 milljarða eign (Gripið fram í.) í þjóðarauðlindinni okkar. Skoðum þetta í samhengi og ræðum það vel í dag. Ég skora á viðkomandi þingmenn að koma í þá umræðu.

Í öðru lagi finnst mér ástæða til að ræða hér um „andstöðu“ okkar við hugmyndir um stöðugleikaskatt. Ég hef til dæmis aldrei tjáð neina andstöðu við hann. Ég styð það að við leysum afnám gjaldeyrishaftanna. Til þess er búið að stofna samráðshóp sem allir stjórnmálaflokkar eiga að koma að. Ástæðan fyrir að okkur setur hljóða er sú að við höfum ekki hugmynd um hvað er verið að leggja á borðið. Við höfum ekki hugmynd um hvert er verið að stefna. Er verið að fara núna út með skattlagningu með svipuðum hætti og var lagt upp með árið 2011?

Það er líka umhugsunarefni að flokkar sem hér koma og berja sér á brjóst út af þessu stóðu gegn því eða sátu hjá þegar þrotabúin voru sett undir gjaldeyrishöft árið 2013, eða hvenær var það? (Gripið fram í: 2012.) 2012. Framsókn sat hjá. Sjálfstæðisflokkurinn var á móti. Það er algjör forsenda þeirra hugmynda sem hér eru uppi á borðinu. Ræðum þetta hreinskilnislega. Þetta er löngu hafið yfir einhverjar pólitískar deilur. Við erum öll í sama liðinu við að finna bestu lausnirnar. Það þarf ekkert að berja sér á brjóst út af þessu, við erum í sama liði hvað það varðar.

Við viljum upplýsingar og umræðu og við viljum fá að vera með í því sem verið er að gera. Sá hópur sem er að vinna þar á bak við á vegum allra stjórnmálahópa hefur sýnt að hann er traustsins verður, getur þagað og gætt trúnaðar. Það er meira en hægt er að segja um aðra. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)