144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Þann 10. apríl sl. bárust fréttir af því að Norðurlöndin hygðust enn auka samstarf sitt á sviði hernaðarmála vegna, eins og þar er sagt, aukinnar ógnar frá Rússum. Í sameiginlegri yfirlýsingu utanríkis- og varnarmálaráðherra landanna segir að hin aukna samvinna eigi einkum að felast í fleiri sameiginlegum heræfingum, meiri samvinnu á sviði iðnaðarframleiðslu, þar á meðal hernaðartengdri framleiðslu, og samstarfi á sviði gagnasöfnunar og úrvinnslu á öllum sviðum. Hlutverk Íslands er gamalkunnugt, að leggja til land undir heræfingar. Mér sýnist að því miður séu Norðurlöndin að færa sig inn á hernaðarvæddari slóðir í sinni utanríkispólitík sem og samstarfi sem að þessu sinni er rökstudd með vísan í eitt tiltekið ríki, ríki sem þegar er beitt efnahagsþvingunum og sem fulltrúi VG í utanríkismálanefnd hefur lýst miklum efasemdum um.

Ég hlýt að spyrja: Er þetta það sem við viljum stefna að í norrænu samstarfi eða er þessi yfirlýsing ekki tilefni til þess að við stöldrum aðeins við? Er þetta gott innlegg til friðarumleitana í heiminum, að auka vígvæðingu og auka þannig á vígbúnaðarkapphlaup milli austurs og vesturs? Ég tel í það minnsta að við séum á kolrangri leið og raunar kemur fram í frétt á RÚV, þar sem sagt er frá yfirlýsingu ráðherranna, að norskur hernaðarsérfræðingur og ráðgjafi norska varnarmálaráðherrans reikni með að Rússar taki yfirlýsinguna óstinnt upp og muni túlka hana sem ögrun.

Alþingi þarf að mínu viti að ræða þessi mál og hvert stefnir og hef ég því óskað eftir sérstakri umræðu um þetta mál við hæstv. utanríkisráðherra.