144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

málefni Íslandspósts.

[15:51]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Íslandspóstur er opinbert hlutafélag eins og komið hefur fram og að fullu í eigu ríkisins. Þannig vil ég sjá hann áfram. Fyrirtækið hefur einkarétt á dreifingu á bréfapósti upp að 50 gr en hefur ekki ásælst það að halda þeim einkarétti áfram. Fyrirtækið er í samkeppnisrekstri í annarri póstdreifingu, eins og við þekkjum, og fram hefur komið að fyrirtæki sem starfa á sama markaði telja að Íslandspóstur nýti sér stærð sína í skjóli einkaleyfis og stærðar og skapi óeðlilegt samkeppnisforskot gagnvart þessum keppinautum sínum. Málið snýst um að samkeppnisreksturinn fjármagni einkaréttinn en Íslandspósti er skylt að skipta kostnaði við rekstur fyrirtækisins niður á samkeppnishluta og einkahluta. Eftirlitsstofnanir eins og Póst- og fjarskiptastofnun og Samkeppniseftirlitið hafa eftirlit með rekstri Íslandspósts og ágreiningur hefur lengi verið við aðila á samkeppnismarkaði. Ég tel að þar horfi menn svolítið á það að fleyta rjómann þar sem hægt er en hafi minni áhuga á að sinna alþjónustu eins og Íslandspósti ber að gera. Samskiptin á milli Íslandspósts og Samkeppniseftirlitsins vegna kærumála samkeppnisaðila hafa velkst í kerfinu í mörg ár og lítið komið út úr því sem segir ákveðna sögu. Þessi mál eru núna í sáttafarvegi sem Samkeppniseftirlitið hefur sett þau í og beðið er eftir niðurstöðu. Eins og ég hef spurnir af bendir margt til að þetta sé stormur (Forseti hringir.) í vatnsglasi en ég tel mikilvægt að skýra rekstrarumhverfi Íslandspósts til að ekki þurfi áfram að koma til svona árekstra við hinn almenna markað.