144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

málefni Íslandspósts.

[15:53]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa ágætu umræðu um málefni Íslandspósts. Félagið hefur verið mikið í umræðunni undanfarna mánuði og ár, ekki síst vegna meintra samkeppnisbrota. Þannig hefur Íslandspóstur verið sakaður um að brjóta gegn ákvæðum samkeppnislaga sem kveða á um bann við misnotkun á markaðsráðandi stöðu og fjárhagslegan aðskilnað á ríkisrekstri og samkeppnisrekstri. Nokkur mál eru enn þá hjá Samkeppniseftirlitinu vegna þessa.

Á opinbert hlutafélag að vera í samkeppnisrekstri? Það er ekkert algilt svar til við því, en Íslandspóstur tengist fjölda fyrirtækja og ýmissi starfsemi sem flokkast undir samkeppnisrekstur. Félagið á til dæmis 100% hlut í Samskiptum ehf., 66% hlut í Frakt ehf., 100% hlut í Gagnageymslunni ehf., 100% hlut í ePósti ehf., 100% hlut í Trönum ehf., sem heldur utan um eina fasteign, 20% hlut í Interneti á Íslandi hf. og 5% hlut í Sendli ehf. Íslandspóstur tengist samkeppnisrekstri í gegnum fjölpóst, flutningsþjónustu, sendibílaþjónustu, flutningsmiðlun, hraðflutninga og rekstur vörugeymslu, auk þess sem félagið stundar lánastarfsemi til dótturfélaga.

Það er orðið brýnt að fá niðurstöðu í rannsókn Samkeppniseftirlitsins. Við verðum að fá niðurstöðu í ásakanir um að Íslandspóstur hafi niðurgreitt samkeppnisrekstur með tekjum frá rekstri sem einkaréttur er á. Viðskiptablaðið hefur meðal annars fullyrt að stjórn Íslandspósts hafi sjálf áætlað að 282 millj. kr. á núverandi verðlagi hafi verið notaðar af tekjum einkaréttar á tímabilinu 2009–2011 til að greiða niður samkeppni á frjálsum markaði sem hefur ekki með svokallaða alþjónustukvöð fyrirtækisins að gera. Þessi fullyrðing hefur verið borin til baka af stjórn Íslandspósts.

Íslandspóstur hefur ákveðnum skyldum að gegna varðandi dreifingu pósts um land allt og það má ekki gleymast í umræðunni. Kostnaður vegna (Forseti hringir.) þess að það þarf að uppfylla þessar skyldur hefur aukist til muna á sama tíma og bréfum hefur fækkað. (Forseti hringir.) Það er nauðsynlegt að skilgreina hlutverk félagsins upp á nýtt og þar með kröfur sem gerðar eru til þess. Breytt þjóðfélag kallar á breytt félag.