144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

málefni Íslandspósts.

[16:02]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kom að því í minni fyrri ræðu að ástæður þessarar sérstöku umræðu eru meðal annars kvartanir sem hafa borist til Samkeppniseftirlitsins um starfsemi Póstsins og þá alveg sérstaklega um 50 gr bréfin. Þar er ágreiningur við önnur fyrirtæki sem vilja komast inn á markaðinn en þetta er enn meint samkeppnisbrot, það hefur ekki verið dæmt í því. Ég segi fyrir mitt leyti, sem fyrrverandi samgönguráðherra sem hefur oft þurft að taka á þessu máli, m.a. að taka þá ákvörðun að afnema ekki einkaréttinn 2008 sem var svo staðfest síðar í ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Það var líka út af ástandinu í landinu. Pósturinn er í opinberri eigu og þrátt fyrir að hér hafi verið talað um að hann sé hluthafi í mörgum fyrirtækjum má alveg deila um hvað hann eigi að vera í mörgum. Ég vil samt ítreka að Pósturinn sinnir mjög góðri starfsemi og er með mjög góða þjónustu. Þó að Pósturinn sé í ríkiseigu, og það er ekki slæmt, veitir hann meðal annars samkeppni um góða þjónustu á flutningi á bögglum og pökkum. Er eitthvað að því? Viljum við frekar hafa bara tvö fyrirtæki, Flytjanda og Landflutninga, eða hvað þau heita? Nei, ég er ekki á því.

Pósturinn hefur ætlað að fara lengra en ég veit núna um svokallaðan ePóst. Allt er þetta breytingum háð og þetta er mikið að breytast, samanber fækkun bréfa sem eru alltaf aðalumræðuefnið um starfsemi Póstsins, og þá verður bara að taka á því, virðulegi forseti. Þessi starfsemi er orðin mjög lágt hlutfall þó að hún kosti mikið. Þá (Forseti hringir.) eru deilurnar um hver sé kostnaðurinn við 50 gr bréfin versus hitt. Bókhaldið, Samkeppniseftirlitið og Pósturinn verða að komast að niðurstöðu um það vegna þess að það á auðvitað að vera alveg skýrt í bókhaldinu.