144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

málefni Íslandspósts.

[16:05]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er sama hversu gott internetið er, það leysir ekki Íslandspóst af hólmi. Þannig er það bara. Íslandspóstur hefur virkilega verið að þróa sig og hefur, eins og hv. þm. Kristján Möller nefndi, verið að þróa rafrænt umhverfi í ePósti. Ég tel mikilvægt að það sé tryggt áfram að Íslandspóstur haldi uppi góðri þjónustu um allt land og sinni alþjónustuskyldu sinni. Við vitum að ef einkarétturinn verður afnuminn þarf þá að skoða fleiri leiðir til að styrkja fyrirtækið í því að þjóna öllum landsmönnum. Mér hefur litist best á að einhvers lags jöfnunarsjóður mundi leysa það af hólmi frekar en að fara í útboð að einkavæðingu eins og líka hafa verið hugmyndir um. Íslandspóstur hefur virkilega verið að hagræða. Mörgum hefur þótt þar nóg um, sérstaklega á mörgum stöðum úti á landsbyggðinni sem standa veikt fyrir, og það hefur oft haldist í hendur við það að fjármálafyrirtæki hafa lagt upp laupana, Íslandspóstur kominn með þjónustu sína þangað inn og þar af leiðandi hafi hann hætt að vera með útibú á mörgum stöðum. Í staðinn hefur verið þjónusta landpósta. Eins og ég hef fregnir af hefur hún reynst bara vel. Menn hafa verið gagnrýnir á það í byrjun, en það hefur komið í ljós að það hefur verið góð þjónusta.

Ég tek undir orð hv. þm. Kristjáns Möllers, Íslandspóstur er líka í stærri flutningum og hefur veitt aðilum eins og Landflutningum og Flytjanda virkilega samkeppni sem ég held að mikil þörf sé á. En það er eins og það er, þegar ríkið stígur með einhvern rekstur aðeins á litlu tána á einkaaðilunum æpa þeir og veina en hafa engan áhuga á (Forseti hringir.) öðru en að fleyta rjómann ofan af því sem best gerist. Þetta held ég að hv. þingmenn ættu að hugsa aðeins um og ekki fara að tala niður þetta fyrirtæki sem þjónar öllu landinu og er grunnþjónusta.