144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[16:15]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl sem er þskj. 1165 og 691. mál. Frumvarpið er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og haft var samráð við Fiskistofu og fjármála- og efnahagsráðuneytið um tiltekin atriði. Með frumvarpi þessu er lögð til úthlutun tímabundinna aflahlutdeilda í makríl til sex ára í senn. Úthlutunin framlengist árlega um eitt ár í senn þar til ákvæði frumvarpsins um fyrirkomulag úthlutunar er breytt eða nýtt ákvæði sett í lög sem mælir fyrir um annað fyrirkomulag.

Í frumvarpinu er jafnframt kveðið á um að aflahlutdeildir þessar verði ekki felldar niður að hluta eða öllu leyti nema með minnst sex ára fyrirvara. Þetta er gert til þess að stuðla að ákveðnum fyrirsjáanleika í veiðunum en fyrirsjáanleiki í veiðum og vinnslu er mikilvægur með tilliti til fjárfestinga, markaða og veiðitíma, svo fátt eitt sé nefnt.

Skýrt stendur í lögum að auðlindin í hafinu við Ísland sé þjóðareign. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að samningsbundin réttindi um nýtingu aflaheimilda taki við af varanlegri úthlutun. Það er því mikilvægt við hlutdeildarsetningu nýrra stofna að kveða skýrt á um úthlutun tímabundinna réttinda meðan ekki hefur tekist að ljúka lagasetningu um tímabundna leigusamninga fyrir alla fiskstofna.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir einnig að aflamarkskerfið skuli áfram vera grundvöllur fiskveiðistjórnar á Íslandi. Í áliti umboðsmanns Alþingis í málum nr. 7021/2012 og 7400/2013 er að finna það álit setts umboðsmanns að skylda til að hlutdeildarsetja makrílstofninn hafi stofnast ekki síðar en 2011 og að það samræmist ekki ákvæðum laga að hafa ekki brugðist við þeirri skyldu. Með vísan til framangreinds er ótvírætt að mikilvægt er að hlutdeildarsetja makríl líkt og lagt er til í frumvarpi þessu.

Meiri óvissa er um makríl en um aðra stofna. Þannig hófst makrílveiði í íslensku lögsögunni ekki í verulegum mæli fyrr en fyrir sjö til átta árum og makríllinn gæti breytt hegðun sinni vegna breyttra aðstæðna í hafinu eða vegna breytinga á fæðuframboði. Til dæmis gæti hann aukið göngur sínar hingað enn frekar.

Að auki er ágreiningur um skiptingu stofnsins og enginn samningur milli Íslands og annarra strandríkja um nýtingu hans. Jafnframt hefur aukið á óvissuna að nokkrar útgerðir fiskiskipa sem veitt hafa makríl á grundvelli núverandi fyrirkomulags hafa kosið að stefna íslenska ríkinu og krafist skaðabóta vegna meintrar rangrar úthlutunar á makríl. Stefnendur telja að skylda hafi stofnast til hlutdeildarsetningar makríls samkvæmt lögum á fyrri veiðitímabilum og þeir orðið af aflaverðmæti vegna þessa. Fyrirséð er að þessi málarekstur muni taka nokkur ár ef niðurstaða héraðsdóms verður borin undir Hæstarétt.

Með frumvarpinu er því lagt til að aflahlutdeildirnar gildi til sex ára í senn. Ég legg sérstaka áherslu á að önnur sjónarmið eiga við um hlutdeildarsetningu þessa nýja stofns þegar kemur að tímabindingu með vísan í framangreind rök en almennt er talið að eigi við um þá stofna sem annars er rætt um að stýra með tímabundnum leigusamningum.

Farin er sú leið í frumvarpinu að leggja til tvenns konar aflahlutdeild, annars vegar að úthlutað verði aflahlutdeildum til ísfiskskipa, frystiskipa og uppsjávarveiðiskipa og hins vegar til báta sem hafa veitt með línu eða handfærum. Hlutdeildunum eða aflamarki á grundvelli þeirra verður ekki hægt að ráðstafa á milli þessara tveggja skipaflokka.

Gert er ráð fyrir að við úthlutun aflahlutdeilda til ísfiskskipa, frystiskipa og uppsjávarveiðiskipa verði miðað við 90% heildarúthlutun aflahlutdeilda í makríl á grundvelli veiðireynslu 2011–2014. Útgerðir þessara skipa geta jafnframt sótt um viðbótaraflahlutdeild vegna afla sem fór til manneldisvinnslu á árunum 2009 og 2010. Þessi viðbótaraflahlutdeild samsvarar 5% af heildarúthlutun aflahlutdeildar í makríl.

Við upphaf makrílveiða var mikið kapphlaup sem ætla má að hafi að hluta til orsakast af því að fyrirtæki lögðu kapp á að skapa sér veiðireynslu. Þessi umgengni á veiðunum var harðlega gagnrýnd á samningsvettvangi um skiptingu makrílstofnsins. Í ljósi þessa og þeirrar staðreyndar að unnt væri að vinna frekari verðmæti úr veiðunum með meiri vinnslu hvöttu stjórnvöld á þessum tíma mjög til vinnslu til manneldis og gefin voru fyrirheit um að skoðað yrði með málefnalegum hætti að taka tillit til þess þegar kæmi að úthlutun aflahlutdeilda.

Hins vegar er gert ráð fyrir að úthlutað verði aflahlutdeildum skipa er stundað hafa línu- og handfæraveiðar á makríl, þ.e. smábáta eins og áður kom fram. Gert er ráð fyrir að 5% úthlutaðra heildaraflahlutdeilda komi í þeirra hlut og miðað verði við veiðireynslu áranna 2009 til og með 2014. Í frumvarpinu er jafnframt gert ráð fyrir að makrílafli þessara báta á árunum 2009–2012 hafi 43% aukið vægi við útreikning aflahlutdeildar til ívilnunar til frumkvöðla sem sannarlega voru að prófa og þróa veiðiaðferðir sem nýttust þeim sem á eftir komu. Þessi ívilnun til frumkvöðla nemur um 700 tonnum miðað við úthlutaðan makrílafla ársins 2014.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að ráðherra setji nánari reglur um framkvæmd laganna í reglugerð, m.a. nánari reglur um ákvörðun leyfilegs heildarafla. Þannig verður heildarafli makríls gefinn út með sérstakri reglugerð fyrir hvert veiðitímabil. Aflamark veiðiskips á hverju veiðitímabili mun ráðast af árlegum leyfðum heildarafla í makríl og hlutdeild þess veiðiskips í þeim heildarafla að frádregnu tilteknu hlutfalli sem nú er 5,3% í samræmi við lög.

Það er ljóst að með úthlutun aflahlutdeilda skapast tækifæri til mikilvægrar hagræðingar á makrílveiðum með framsali aflaheimilda. Sú gagnrýni á kvótakerfið sem er hvað háværust beinist að þeim verðmætum sem dregin eru út úr greininni með framsali aflaheimilda. Reynt var að horfa sérstaklega til leiða til þess að bregðast við þeirri gagnrýni við smíði þessa frumvarps. Skoðaðar voru ítarlega ólíkar útfærslur af gjaldtöku vegna úthlutunar, kostir þeirra og gallar. Lengst af var farið yfir leiðir til skattlagningar á sölu aflaheimilda sem þótti hvað fýsilegust til að bregðast við framangreindri gagnrýni. Við nánari skoðun þótti ljóst að sniðgönguleiðir væru of margar til að raunhæft væri að ætla að slíkur skattur skilaði því sem honum væri ætlað.

Samhliða þessu frumvarpi er því lagt fram frumvarp um veiðigjöld. Í því er að finna sérstakt ákvæði um álag á gjald á makríl, 10 kr./kg til næstu sex ára sem ætlað er að skili tæplega 1,5 milljörðum í tekjum til ríkissjóðs árlega. Eðlilegt er að þeir, sem bjóðast aflahlutdeildir til afnota á grundvelli frumvarps þessa, greiði fyrir það sérstakt gjald umfram venjulegt veiðigjald þar sem um nýjan stofn er að ræða. Ekki hafa verið stunduð viðskipti með aflaheimildir hans fram til þessa og renta því enn til staðar, ólíkt öðrum stofnum sem hafa verið í kvótakerfinu í nokkra áratugi og gengið þar kaupum og sölum.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu atriðum frumvarpsins og legg til að því verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.