144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[16:26]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við skulum ræða það málefnalega á eftir hvað er á bak við svona háar tölur, enda verður markaðurinn að svara því hversu hátt hann metur það að eiga framsalsrétt og eiga möguleika á því að selja sig út úr greininni, skilja skuldirnar eftir á viðkomandi grein og fara með hagnaðinn annað. Það er nákvæmlega það sem þessi þjóð hefur barist gegn. Um það hefur verið mesti ágreiningurinn í kvótakerfinu frá upphafi.

Það er ófært að kikna í hnjáliðunum vegna þess að einhver útgerð kærir, við erum að tala um nýja tegund, makríl, og viðbót, og þar með sagt að hæstv. ráðherra sjávarútvegsmála ætli að viðurkenna, á sama tíma og við fáum fréttir um að þorskstofninn sé að styrkjast verulega, að það séu einkarétthafar að öllum okkar sjávarauðlindum til eilífðar. Er ekki réttara að stjórnvöld taki upp baráttuna harkalega gegn því? Það er það sem ég er að biðja um að verði gert.

Hér er nefnilega ekki verið að fara neitt í rýrari kjör en eru í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Það er verið að tala um sex ár sem framlengjast árlega, (Forseti hringir.) þ.e. nú þarf sex ára aðdraganda til að segja upp ákvæðinu. Hvernig er það í núverandi lögum? Samkvæmt Sigurði Líndal er hægt að gera það með árs fyrirvara.