144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[16:28]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ef við förum að ræða hversu langan tíma menn hafa talið séu fræðimenn flestir á þeirri skoðun að það þurfi að minnsta kosti 15 ár til þess, flestir hafa talað um 20, nokkrir 25. Það er búið að ræða það í mörg ár þannig að ég held að við ættum ekki að setja okkur þangað.

Eins og ég sagði í fyrra andsvari mínu er hér brugðið verulega út af hefðbundinni hlutdeildarsetningu, annars vegar með því að tímabinda úthlutunina til sex ára og hins vegar taka viðbótargjald. Ég fór yfir það í ræðu minni að ég er sammála hv. þingmanni um að stærsta ágreiningsefnið í kvótakerfinu hafi ævinlega verið þeir sem hafa selt frá sér hlutdeildir og farið út úr greininni. Við leituðum ítarlegra leiða til að setja á — getum við kallað það útgönguskatt? Þær leiðir fundust ekki, einfaldlega vegna þess að of margar sniðgöngur voru á því fyrirkomulagi.

Þess vegna er lagt til viðbótargjald sem mun að sjálfsögðu renna í ríkissjóð sem stærri hlutdeild (Forseti hringir.) af þeim verðmætum sem hér er verið að hlutdeildarsetja vegna þess að það er viðurkennt að það er renta í makrílnum sem er ekki í öðrum stofnum.