144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[16:29]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er mjög sniðugt og klárt útspil. 2. gr. frumvarpsins þýðir í rauninni að um leið og frumvarpið verður að lögum er þessi úthlutun föst í sex ár og ekki hægt að segja henni upp. Svo framlengist þetta um eitt ár í senn og helst alltaf í þessum sex árum ef því er ekki sagt upp. Og það er bara hægt að segja þessu upp með sex ára fyrirvara sem þýðir að næsta ríkisstjórn og næsta þing er alltaf bundið af þessu. Segjum að það kæmi annað hrun eða einhverjir erfiðleikar sem þýddu að ef fiskveiðistjórnarflokkarnir, kvótaflokkarnir tveir sem hafa verndað hagsmuni þeirra sem hagnast á núverandi kerfi hvað mest, færu frá eru þeir alltaf með þann varnagla að ef þeir komast aftur í stjórn framlengja þeir bara. Þetta heitir að binda hendur.

Ég veit ekki betur en að hæstv. ráðherra Gunnar Bragi Sveinsson hafi einmitt verið að kvarta undan því að eitt þing mætti ekki binda hendur annars þings, en það er nákvæmlega það sem er verið að gera þarna (Forseti hringir.) í stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar.