144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[16:45]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hér ræðum við frumvarp ríkisstjórnarflokkanna um stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakrílnum sem kom til okkar, sem betur fer, inn í landhelgina fyrir nokkrum árum og hefur skapað alveg gríðarleg verðmæti, sérstaklega á erfiðleikaárunum þannig að menn fögnuðu því mjög að makríllinn væri kominn. Hann hefur gefið vel af sér fyrir þjóðarbúið, veiði hefur aukist, en við skulum hafa það líka í huga að við vitum ekki nægjanlega mikið enn þá um hvaða áhrif makríllinn hefur í sjónum í kringum okkar, á lífríki hafsins, á þær fæðutegundir sem aðalnytjastofnar okkar þurfa að hafa sér til viðurværis og vaxtar. Sem betur fer er verið að kynna núna niðurstöður úr marsralli Hafrannsóknastofnunar og við fyrstu sýn virðast þar margar jákvæðar niðurstöður. Eins og ég segi hefur þessi gestur okkar í landhelginni skapað mikið en hann tekur líka mikið frá. Það skulum við hafa í huga.

Það sem ég vil segja í byrjun snýr að því að hæstv. ríkisstjórn sagði í sáttmála sínum um sjávarútveg, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisstjórnin vill efla sátt um framtíðarskipulag greinarinnar. Áfram verður unnið með tillögu sáttanefndar sem starfaði á liðnu kjörtímabili um að samningsbundin réttindi um nýtingu aflaheimilda taki við af varanlegri úthlutun.“

Ég verð að segja fyrir mitt leyti að margt af því sem núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra ætlaði sér að gera við breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu var þannig að maður lagði vel við hlustir alveg eins og maður hlustaði líka á það með athygli þegar hæstv. ráðherra lýsti því yfir að ekkert frumvarp kæmi vegna ágreinings við hinn stjórnarflokkinn, þ.e. Sjálfstæðisflokkinn, um útfærslu á því hvað ætti gera við fiskveiðistjórnarkerfið í heild sinni til að skapa meiri sátt, til að koma til móts við ýmis sjónarmið í þjóðfélaginu með þetta gundvallaratriði sem ég hef alltaf borið fyrir brjósti að væri hægt að gera og yrði að gera þó að það yrði aldrei 100% sátt meðal þjóðarinnar. Það verður aldrei full sátt en meiri sátt en getur í dag orðið um fiskveiðistjórnarkerfi sem tekur til úthlutunar til aðeins eins árs í senn. Greinin er í uppnámi hvað það varðar, í raun á hverju ári, a.m.k. á fjögurra ára fresti, við kosningar, vegna þess að okkur á Alþingi ber skylda til þess með það sem við höfum kallað höfuðatvinnuveg okkar að ná víðtækari sátt.

Í 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna segir að fiskurinn í sjónum sé sameign íslensku þjóðarinnar. Íslensk þjóð verður þá að fá verulegan arð af þessari auðlind. Það merkilegasta sem gerðist á síðasta kjörtímabili í þessari grein var að mínu mati þegar þáverandi ríkisstjórn tókst að koma í gegnum Alþingi lögum um veiðigjöld. Það var ein af mörgum tillögum svokallaðrar sáttanefndar, að við mundum áfram byggja á aflamarkaðskerfi en að fyrir afnotin kæmi greiðsla. Allir flokkar hafa ályktað um það að taka hóflegt veiðileyfagjald. Síðan er það skilgreining hvað er hóflegt og hvernig á að reikna það. Við ræðum betur um veiðigjöld þegar það frumvarp kemur til umræðu á Alþingi hvenær sem það verður.

En það er alveg rétt að við upptöku veiðigjaldakerfisins var verst að mínu mati hvað við áttum lítið af rauntímaupplýsingum um hvernig við ættum að leggja þetta á. Við gerðum það miðað við tveggja ára gamlar tölur sem Hagstofan hefur unnið frá aldaöðli og voru aldrei hugsaðar sem stofn til álagningar veiðileyfagjalds. Þess vegna er það verkefni okkar á Alþingi að þróa betur aðferðafræðina þannig að rauntímaupplýsingar séu notaðar bara svipað og í virðisaukaskattskerfinu, að afli sem er landað á tveggja mánaða tímabili sé stofninn til álagningar gjaldsins. Þannig tekur hann breytingum til hækkunar eða lækkunar eftir því hvernig gengur á markaði. Það eru nútímalegar upplýsingar sem við þurfum að hafa við þetta atriði.

En af hverju las ég upp úr stjórnarsáttmálanum um sjávarútvegsmál? Vegna þess að það er alveg augljóst strax í byrjun umræðunnar og í þjóðfélagsumræðunni sem hefur skapast eftir að þetta frumvarp kom fram að það mun ekki takast að mynda sátt um það hvernig við eigum að útdeila þessari auðlind, hvað sameiginlegir sjóðir eiga að fá fyrir hana og hvernig við gætum jafnræðis milli þegnanna en tökum líka tillit til þeirra sem hófu veiðar með miklum tilkostnaði en lítilli veiði, sérstaklega á fyrstu árunum. Það er bundið í lög eins og hér hefur komið fram. Þess vegna hefði ég talið að þetta frumvarp ætti ekki að koma fram núna vegna þeirra áforma ríkisstjórnarinnar að reyna að ná meiri sátt og koma með nýtt frumvarp. Ég held að við hefðum alveg getað haldið áfram í eitt eða tvö ár í viðbót að gera þetta á sama hátt og við höfum gert undanfarin ár.

Ég hefði viljað sjá áður eða um leið uppfyllt það ákvæði sem hæstv. forsætisráðherra hefur talað um og allir stjórnmálaflokkar sem eiga sæti á Alþingi hafa tekið undir, að festa í stjórnarskrá að auðlindir landsins séu sameign þjóðarinnar. Það er grundvallaratriði. Ég hélt lengi vel að ríkisstjórnin ætlaði sér að efna það loforð (Gripið fram í.) en mér sýnist það ekki vera (Gripið fram í.) vegna ósamkomulags innan stjórnarflokkanna um hvaða leið á að fara. Þannig er það, þannig var því lýst af hæstv. sjávarútvegsráðherra sem ég ber mikla virðingu fyrir að hafi talað af svo mikilli hreinskilni sem hann gerði. Og þannig eigum við að gera það.

Ekkert samkomulag er við önnur strandríki um hvernig skuli útdeila þessari miklu auðlind til að vera ekki að ofveiða eins og við erum að gera, við og aðrir miðað við ráðgjöf. Í töflu 7 í frumvarpinu kemur fram að á árinu 2013 hafi ráðgjöfin verið 542 þús. tonn en heildarveiðin 932 þús. tonn, fór 72% fram úr ráðgjöf. Við höldum fast fram okkar hagsmunum, að við eigum svo og svo mikla hlutdeild í þessum stofni sem kemur hingað til að éta, og étur frá öðrum tegundum eins og ég gat um í upphafi máls míns, að við eigum skýlausan rétt. Þess vegna verð ég líka að segja að það voru mikil vonbrigði hvernig frændþjóðir okkar sem við köllum svo og höfum starfað mikið með í fiskveiðimálum komu í bakið á okkur á síðasta ári. Meðan þessu máli er ekki lokið held ég að ekki sé ástæða til að hlutdeildarsetja þetta eins og hér er boðað. Ég hef haft það fyrir reglu að hlusta á 1. umr. máls meðan fulltrúar allra flokka reifa sjónarmið sín og hugmyndir. Ég á sæti í atvinnuveganefnd sem fær frumvarpið þannig að ég mun hlusta eftir því sem hér kemur fram og hvernig það verður rætt og farið í gegnum málið, en ég tók líka eftir því í flutningsræðu hæstv. ráðherra að hann talaði um hvaða leið ætti að nota. Er það þessi leið eða er það sú leið að einhver hluti fari til þeirra sem hafa veiðireynslu og stærri hluti á einhvers konar uppboðsmarkað þar sem ríkið býður út og aðilar gera tilboð, þeir sem vilja veiða meira o.s.frv. og þeir bestu vilja þá veiða meira? Allt í lagi með það. Hæstv. ráðherra sagði áðan að það væru einhver vandræði með hvernig ætti að gera þetta vegna verðmæta sem dregin eru út úr greininni.

Þar kem ég að því sem hefur verið aðalástæða þeirrar deilu sem er í þjóðfélaginu um þennan höfuðatvinnuveg okkar. Það eru verðmætin sem eru dregin út úr greininni þegar þeir sem hafa aflahlutdeild frá þjóðinni og hafa borgað fyrir það eitthvert gjald síðustu ár selja sig út úr greininni, hætta, aðrir kaupa og skuldsetja sig mikið vegna hás verðs eins og þar var og veldur þar af leiðandi jafnvel erfiðleikum hjá þeim sem keypt hafa. Upp í huga minn kemur til dæmis byggðarlag í Norðausturkjördæmi sem þingmenn þess kjördæmis hafa verið að ræða við undanfarið um birtingarmyndina þar vegna kvótakerfisins, þ.e. að þegar menn ætluðu að verja aflaheimildir viðkomandi byggðarlags og kaupa meira sem er svo eins og hengingaról á allt byggðarlagið í dag.

Þetta er vandamálið og hæstv. ráðherra talaði um sniðgönguleiðir, hann notaði það orð. Á uppshafsárum kvótaársins var venjulega talað um að sjávarútvegurinn, geirinn, væri jafnan búinn að finna leiðir frá því sem Alþingi væri að samþykkja jafnvel áður en forseti Íslands skrifaði undir og gerði að lögum það frumvarp sem þá hafði verið samþykkt. Þetta eru staðreyndir málsins. Þetta er það versta að mínu mati við kvótakerfið. Við munum alltaf þurfa að stjórna veiðunum og megum ekki taka eins og okkur sýnist. Það verður að hafa í huga stofnstærðir og annað og það sem hefur komið síðustu ár sem er enn þá meira farið að huga að, þ.e. að kaupendur að sjávarafurðum okkar gera þá kröfu að við séum í sjálfbærum veiðum, að við séum ekki að ofveiða stofninn. Það er einmitt það sem er sennilega að gerast með makrílstofninn, ekkert samkomulag, og þess vegna er ég efins um þá leið sem hér er boðuð á þessum tímapunkti.

Menn hafa talað um að það sé erfitt að taka nýja tegund eins og hér er og gera eitthvað annað en við gerðum á upphafsárunum, þ.e. að úthluta til þeirra sem höfðu veiðireynslu, en við getum sett sumt í veiðireynslu, einhvern hundraðshluta sem ég ætla ekkert að tjá mig um, en ríkið getur haldið eftir hjá sér og reynt að þróa upp kvótaþing, verið með eitthvert magn á kvótaþingi sem er boðið út líkt og gert er með ýmsar tegundir í svokölluðum 5,3% potti, jafnvel skipti. Það hefði verið hægt og er að mínu mati enn hægt. En hér hafa komið fram um þetta mál mjög ólík sjónarmið og á þeim 15 mínútum sem manni eru ætlaðar í fyrstu ræðu við 1. umr. um málið hef ég ýmsar athugasemdir og spurningar um leiðir sem farnar eru. Ég hef ekki tíma til að setja þær allar fram núna enda held ég að það sé bara betra að gera það í viðkomandi nefnd. Þegar umsagnaraðilar verða búnir að senda okkur inn umsagnir og álit á þessu fer nefndin í gegnum gögnin en ég set mikið spurningarmerki við þessi sex ár og að ef Alþingi breytir taki það sex ár að snúa niður. Það gæti jafnvel farið svo að það verði enginn makríll á Íslandsmiðum eftir sex ár, það getur alveg gerst. Við höfum enga vissu fyrir því að þessi fiskur verði hjá okkur um ókomna tíð.

Að lokum vil ég svo geta þess, virðulegi forseti, að það sem mér finnst ósanngjarnt líka er þegar viðmiðunarárin eru sett eftir á. Í þessu frumvarpi er talað um árin 2011–2014 og ef maður skoðar þau sérstaklega eru uppsjávarveiðiskipin sem hófu þessar veiðar með mikla reynslu en smábátar, lína og handfæri og skip án veiðireynslu eru með mjög lítið. Það má alveg spyrja sig: Er það ekki heiðarlegra og sanngjarnara ef menn ætla að fara þá leið að hlutdeildarsetja að segja í tæka tíð að X ár verði viðmiðunarárin? Að mínu mati eru þeir smábátar sem fóru af stað á línu- og handfæraveiðum, sem fóru seint af stað vegna þess að þeir þurftu að fara í miklar fjárfestingar og menn höfðu ekki tök á veiðunum, hvernig ætti að gera þetta o.s.frv., með mjög litla veiðireynslu sem gerir það að verkum að þeir munu fá mjög lítið út úr þessu heildarmagni ef þetta frumvarp gengur fram.

Þetta voru mín fyrstu viðbrögð á 15 mínútum. Ég hefði viljað segja margt fleira um þetta en vil aðeins geta þess (Forseti hringir.) í lokin að við höfum eitt dæmi í tíð núverandi ríkisstjórnar. Þegar rækjan var kvótasett aftur varð að samkomulagi í Alþingi, sem mig minnir að allir hafi samþykkt, að gera það upp á skiptihlutföll 50/50. Það er leið sem við erum búin að sýna í því máli. Því skyldi hún ekki vera fær í þessum efnum?