144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[17:03]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta andsvar og þær vangaveltur sem hér eru settar fram. Hann gerði að umtalsefni það sem ég sagði á síðustu sekúndum ræðu minnar um breytingarnar sem gerðar voru á rækjunni eftir að hún hafði verið utan kvóta og sótt bara af þeim sem vildu á árum sem var ekkert voðalega mikið verið að sækja. Atvinnuveganefnd vann þetta frumvarp eftir að hæstv. ráðherra lagði það fram þar sem gert var ráð fyrir í byrjun 75/25, ef ég man rétt. (Gripið fram í: 70/30.) Ha? 70/30. Þegar við fórum í gegnum þetta í nefndinni var það sá hluti sem ég var að reyna að segja sérstaklega á nokkrum sekúndum að við gátum talað okkur niður á niðurstöðu og það er ekkert voðalega oft við breytingar á fiskveiðistjórnarkerfi sem við sáum atkvæðatöfluna eins og hún var þá. Allir þurftu að gefa eitthvað eftir af sínum sjónarmiðum. Þeir sem vildu kvótasetja í hlutföllunum 70/30 gáfu eftir. Þeir sem vildu hafa veiðarnar frjálsar áfram gáfu eftir. Niðurstaðan var að skipta þessu 50/50.

Ég ætla ekki að fara í karp við hæstv. ráðherra um það hvort verið var að greiða úr flækju sem gerð var með því. Ég er hins vegar ekki sammála ráðherranum hvað það varðar að þetta hafi ekki verið fordæmi. Þetta var fordæmi um að ef til vill væri hægt að tala sig niður á meiri sátt. Það er grundvallaratriði.

Aðeins varðandi ofveiðina sem hæstv. ráðherra ræddi um, það er alveg rétt að ráðgjöfin fór upp í 1 millj. tonna, hækkaði um 100% milli áranna 2013 og 2014, en heildarveiðin var samt sem áður þá 1.400 þús. tonn, þ.e. 28% fram yfir. Ef ráðherra kemur aftur kem ég í mínu seinna svari (Forseti hringir.) að smábátunum og hugsanlega makríl sem hluta af byggðapotti eða byggðaaðgerðum sem við gætum notað með því að nota líka makríl.