144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[17:06]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, það er mjög mikilvægt og kom fram í ræðu hans að við náum sátt um þessa atvinnugrein svo hún geti fengið að starfa í friði fyrir inngripum stjórnmálamanna með reglulegu millibili. Ég ætla líka að ítreka það sem ég sagði áður, að fyrirvarinn sem við settum um að þetta væri ekki fordæmi, að við værum að leysa úr einstökum vanda, við skulum láta liggja á milli hluta hvernig hann varð til með rækjuna.

Ég náði ekki að klára varðandi smábátana og ætlaði að bæta við þær upplýsingar að við erum að gefa í með 5%. Það hljómar kannski lítið en það hefur aldrei verið meira og í upphafskvóta síðasta árs til smábáta voru þeir nokkuð vel innan við 4%, veiddu reyndar 4,7% þegar upp var staðið, þannig að þessi 5% hafa aldrei verið meiri. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni, fyrstu árin veiddu menn lítið. Margir töldu að þetta væri óframkvæmanlegt og væri ekki þess virði að leggja út í þann kostnað. Það var ekki fyrr en að einhverjir lögðu í þann kostnað og voru kannski búnir að vera á þessum veiðum í eitt, tvö eða þrjú ár með engum ágóða að þeir fundu leiðina og þá komu fleiri í kjölfarið og enduðu á síðasta ári í um það bil 120 bátum, held ég.

Það er eðlilegt miðað við þá löggjöf sem við höfum verið með og væntingar að menn búist við því að fá það til baka sem þeir leggja í í því kerfi sem við höfum byggt upp á liðnum árum. Ég ítreka að sá hlutur hefur aldrei verið stærri.