144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[17:11]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp um kvótasetningu á makríl og gjaldtöku. Hæstv. ráðherra hefur talað um sátt. Mér finnst þetta ekki vera mikið innlegg í sátt, hvorki við hluta greinarinnar né þjóðina og finnst þetta í raun og veru vera bara eins og blaut tuska framan í almenning og þá sem hafa viljað gera breytingar á því kvótakerfi sem við búum við og höfum gert allt of lengi. Ef þetta er forsmekkurinn af því sem koma skal í frumvarpi ráðherra sem kemur trúlega fram á næsta þingi, þar sem ekki náðist sátt milli stjórnarflokkanna um hvort auðlindin væri í eigu þjóðarinnar eða útgerðarmanna og menn treystu sér ekki til að leggja frumvarp hæstv. ráðherra fram, er það til þess að kynda upp mikla andstöðu meðal þjóðarinnar og hér á þingi meðal okkar þingmanna sem viljum að farið sé með öðrum hætti með sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar.

Maður spyr sig að því hvað kalli sérstaklega á að kvótasetja makríl. Ég hef heyrt röksemdir hæstv. ráðherra sem vísar til þeirra laga sem við búum við að eftir ákveðna veiðireynslu og viðmiðun þurfi að kvótasetja samkvæmt íslensku löggjöfinni. En við höfum svigrúm til þess að fara að með öðrum hætti og byggja það auðvitað á lagagrunni með tegundir eins og makríl sem kom inn í landhelgina í kringum árið 2007 og aflinn hefur verið að aukast á undanförnum árum. Við höfum tækifæri til að gera þetta öðruvísi. Það má gagnrýna það að síðasta ríkisstjórn og síðustu tveir sjávarútvegsráðherrar hafi ekki gert það, það er alveg hægt að gagnrýna það. En þar með er ekki sagt að núverandi hæstv. ráðherra geti ekki ef vilji er fyrir hendi gert þetta með öðrum hætti.

Með þessari löggjöf er settur verðmiði á makrílinn og menn innan greinarinnar fá í raun gjafakvóta — því þetta er alvörugjafakvóti. Við höfum rætt um núverandi kvótakerfi og hve erfitt sé að breyta því, þar hafi menn keypt sínar aflaheimildir að stærstum hluta eða yfir 80% og það sé orðinn mjög lítill hluti í greininni sem hafi komið inn í greinina og ekki þurft að borga fyrir. Gott og vel. En þeir aðilar sem núna eru búnir að stunda makrílveiðar og koma til með að fá kvótasetningu fyrir útgerðir sínar eða báta borga ekki krónu fyrir. Þess vegna er þetta gjafakvóti. Daginn eftir geta þeir farið með þennan verðmiða á aflahlutdeildina og komið henni í fjármuni. Er það eðlilegt þegar þjóðfélagið logar í verkfallsátökum og fram fer barátta um kaup og kjör, að fá laun hækkuð á þremur árum kannski upp úr 300 þús. kr. á mánuði, að þeir útgerðaraðilar sem þarna eiga í hlut geta fengið upp í hendurnar tugi milljóna og jafnvel milljarða sisvona vegna gjafmildi hæstv. sjávarútvegsráðherra og stuðningsmanna hans á þingi? Það er hægt að deila um hvert aflaverðmæti makríls var á síðasta ári, til eða frá, en það skiptir tugum milljarða kr. Menn hafa nefnt allt upp í 150 milljarða, og þó það væri minna. Það er bara sagt að þarna sé verið að hagræða. En hvað þýðir það? Það þýðir að menn geti verslað með makríl sín á milli og það þýðir samþjöppun. Einhverjir munu hrökklast úr greininni vegna þess að þeir hafa ekki næga viðmiðun til að geta haldið út sínum makrílveiðum, þeir á minni bátunum, og eru þá upp á aðra komnir, að fara að leigja af öðrum. Hvaða verðmiði verður settur á það? Menn ráða trúlega ekkert við það, að standa undir því að gera út á þann kvóta sem þeir hafa fyrir, plús það að borga fyrir kvóta og kaupa til sín. Það er engin þörf á að stilla hlutunum upp svona, það á auðvitað að þróa þetta áfram.

Deilan snýst eins og alltaf um skiptingu á heildarkökunni. Deilan snýst um það hve hátt hlutfall stóri uppsjávarflotinn á að hafa af þeim aflaheimildum sem við höfum haft til umráða í makríl og hve stóran hluti minni bátarnir eiga að fá og síðan millistærð togara og stærri skip sem hafa líka veitt makríl á línu og önnur veiðarfæri. Deilan snýst um það. Þar þarf auðvitað að koma með einhverja tillögu sem byggð er á réttlæti og sanngirni og standa við hana. Landssamband smábátaeigenda hefur talað fyrir því að þeir fái aukna hlutdeild í heildarafla. Þeir eru með held ég aðeins um tæp 5% í dag. Þeir tala um að fá allt upp í 18%. Það er auðvitað engin heilög tala, en mér finnst eðlilegt að hlutur þeirra sé aukinn.

Síðan sé ég fyrir mér að menn ákveði að veiða makríl á ársgrundvelli og hægt sé að skipta þessu upp á milli þessara þriggja flokka kannski og leigja makrílinn út. Það mætti tengja leiguverðið við aflaverðmæti upp úr sjó svo það fylgdist að ef mismunandi verð er á makríl eftir því hvort hann kemur frá smábátum eða stærstu útgerðunum. Auðvitað viljum við öll að makríll verði áfram nýttur til manneldis. Á upphafsárunum fór allt of mikið í bræðslu. Sem betur fer setti síðasti sjávarútvegsráðherra girðingar um það þannig að aflinn fór að öllu leyti til manneldis. Það er gott og auðvitað viljum við nýta aflann sem best.

Svo er það spurningin með kvótasetningu til sex ára. Hæstv. ráðherra lætur eins og að þetta sé nú bara til sex ára og alltaf sé hægt að losa um það og breyta. Ég sé í fjölmiðlum að samtök sjávarútvegsfyrirtækja eru mjög óánægð með að þetta eigi ekki að gilda til lengri tíma en sex ára, vilja auðvitað hafa það til enn þá lengri tíma eins og þeirra er von og vísa. En við höfum ekkert í hendi um það hve makríllinn verður lengi í okkar lögsögu. Við höfum ekkert í hendi um það. Hvað ætlum við að gera ef svo illa vill til að makríllinn hverfur úr lögsögu okkar innan einhverra ára, sem ég vona auðvitað að gerist ekki? Koma þá ekki strax þeir aðilar sem núna fá aflahlutdeild í makríl, kvótasetningu, og heimta bætur? Við þekkjum það. Við þekkjum rækjubætur og skelbætur og þar sem þeir eru komnir með aflahlutdeild telja þeir alveg örugglega að öll lagaumgjörð hnígi í þá átt að þeir eigi fullan rétt á bótum og krefjast þess trúlega að fá þær í verðmætustu tegundinni, þorski. Ég held að menn sjái ekki fyrir endann á þessu. Þetta er grafalvarlegt mál. Og sú tekjutilfærsla í þjóðfélaginu sem þarna er verið að byggja undir er gífurleg. Með þeirri tekjutilfærslu og eignamyndun ákveðinna aðila í þjóðfélaginu sem verður á einni nóttu ef þetta frumvarp verður samþykkt hækkar efnahagsreikningur þeirra og innstæða samsvarandi. Hjá mörgum er um að ræða tugi milljóna, hundruð milljóna og milljarða. Þetta eru engir smápeningar. Reiknimeistarar geta reiknað og fundið það út og það hefur verið gert. Ég er ekki með þær tölur hérna og sé kannski ekki ástæðu til þess að tíunda þær á þessu stigi, en ég á von á því að það verði dregið vel fram í umræðunni eftir að málið gengur til nefndar.

Varðandi minni bátana hef ég í mínum málflutningi í gegnum þau ár sem ég hef verið á þingi alltaf talið fulla þörf á því að standa með þeim sem minni eru, því oftar en ekki eru þeir stóru og sterku fullburðugir til að verja sig sjálfir. Þó að stjórnarflokkarnir í dag hafi valið þá til þess að slá skjaldborg um mun ég ekki eyða mínum kröftum í það heldur nýta þá til að standa með þeim sem mega sín minna. Í því sambandi tel ég mikið áhyggjuefni hvað verður um alla þá sem hafa farið út í makrílveiðar á minni bátunum og byggt sig upp með miklum tilkostnaði. Stórútgerðin, uppsjávargeirinn, hefur ekki þurft að kosta til miklum fjármunum til breytinga á búnaði við að fara á makrílveiðar. Það vita allir sem þekkja til að þeir nota sömu veiðarfæri og menn nota við loðnuveiðar. Það er bara gott og blessað. Það er gott að hægt sé að samnýta það og ekkert að því. En minni smábátageirinn hefur kostað miklu til að setja upp búnað um borð í bátunum, það getur kostað allt að 5, 6, 7 millj. kr. Þetta eru bátar sem eru kannski á verðbili sem er helmingurinn af þessu eða tvisvar sinnum það verð sem bátarnir sjálfir kosta sem einyrkjar eða minni fyrirtæki reka. Það fer því hátt hlutfalll af kostnaði viðkomandi útgerða í að breyta bát til þess að geta farið á makrílveiðar.

Ég held að Landssamband smábátaeigenda sé ekkert að hrópa úlfur, úlfur þegar það segir að þetta verði rothögg fyrir þá grein. Rothögg. Er það það sem við viljum? Erum við ekki að reyna að berjast fyrir minni byggðirnar? Og hefur ekki makríllinn skipt miklu máli fyrir þær margar, t.d. með því að dekka sumrin í fiskvinnslum víða um land? Ég veit að það hefur skipt miklu máli á Snæfellsnesi og á fleiri stöðum og hefur gert mikið í því að brúa bilið vegna þess að víða hafa sjávarplássin misst frá sér kvóta.

Hvernig sem allt þetta fer þá tek ég undir það að tekin verði frá ákveðin hlutdeild á makríl til byggðaráðstöfunar í félagslegar og atvinnutengdar aðgerðir. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt.

Þessi kvótasetning þýðir bara áframhaldandi samþjöppun í greininni. Áframhaldandi samþjöppun með áframhaldandi ömurlegum afleiðingum fyrir landið og fyrir dreifðar byggðir landsins. Það er Framsóknarflokkurinn með hæstv. ráðherra Sigurð Inga Jóhannsson í fararbroddi sem ætlar með þessum hætti að ráðast á þá sem geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér og að koma í veg fyrir að makríllinn nýtist ekki síður en þeim stóru og sterku minni byggðarlögum og minni útgerðum.