144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[17:26]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það væri svo sem hægt að hafa mörg orð um ræðu þingmannsins en hér kallast ýmist á að makríllinn gæti horfið og að makríllinn gæti samt verið 150 milljarða virði. Mér finnst svolítið mikilvægt að menn velti því fyrir sér hvoru menn ætla að trúa, hvort um sé að ræða stofn sem sé við það hverfa, þá getur hann verið 0 kr. virði, eða hvort menn telji og geti sýnt fram á þær geggjuðu tölur sem þeir leggja fram með einhverjum reikningum.

Hv. þingmaður sagði að menn fengju þetta gefins. Það er rangt. (Gripið fram í: Nú?) Í fyrsta lagi greiða menn veiðigjald, eðlilega, það hafa menn gert áður. Síðan er hér sett álag til sex ára sem skilar 1,5 milljörðum árlega ef þetta frumvarp verður að lögum, þ.e. 9 milljörðum á þessum sex árum.

Af því að hv. þingmaður hefur tekið nokkuð málstað smábátanna má nefna að þegar þeir hafa fengið hæst verð fyrir kílóið af makríl hefur það verið 70 kr. Við erum að leggja til að veiðigjaldið sé rúmlega 8 kr. og álagið 10, eða rúmlega 18 kr. Ég hef miklu meiri áhyggjur af því að þetta gjald sé of hátt fyrir þessa smábáta. En hv. þingmaður kallar að verið sé að gefa einhverjum eitthvað.

Ég hef miklu meiri áhyggjur af því að þessir minni aðilar treysti sér ekki til að taka við hlutdeildinni og fara að gera út þar sem 18 kr. fara til ríkisins. Hvaða áhrif skyldi það hafa, hv. þingmaður, ef menn þurfa að greiða svona hátt gjald og ákveða síðan að selja hlutdeildina? Þá fer stærra hlutfall af þeim tekjum til ríkisins. Sá sem kaupir kaupir væntanlega á lægra verði ef hann trúir til að mynda hv. þingmanni að makríllinn sé að hverfa á næsta ári, hann fer þá ekki að kaupa þær makrílhlutdeildir á háu verði.

Það er óvissa um makrílinn. Hér er farin önnur leið en ótímabundin úthlutun án þess að taka viðbótargjald. Það er verið að fara algjörlega (Forseti hringir.) nýja leið.