144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[17:28]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað algjörlega í höndum hæstv. ráðherra hvernig hann skiptir gjaldinu á milli útgerðarflokka. Hann hefur það algjörlega í hendi sér að hafa mismunandi gjald. Hann getur það með ýmsum hætti. Hæstv. ráðherra byrjaði á því að lækka þann stuðning sem smábátar höfðu varðandi að borga sérstakt veiðigjald upp að 35 tonnum og svo hálft upp í 60 tonn. Hann ákvað að þurrka það út. Ég er enginn véfrétt um það að makríllinn sé að fara úr íslenskri lögsögu. Það vita allir sem fylgjast með sjávarútvegsmálum að makríllinn er ekkert fastur í hendi. Það þarf ekki mig til að segja það. Það er ekki enn þá búið að semja um makrílinn milli landa, það er ósamið, og við vitum ekki hve lengi hann verður í íslenskri lögsögu. Af hverju þarf þá að setja hann inn í þessa peningamaskínu útgerðarmanna til þess í raun að grisja greinina? Hæstv. ráðherra grisjar greinina með þessu, því að minni útgerðirnar rísa ekki undir því að fá kannski hluta af þeim afla sem þær hafa verið að veiða og þurfa að kaupa af öðrum. Þær rísa ekki undir því.

Ráðherra verður að skilja að það er ekkert náttúrulögmál að það þurfi að kvótasetja allar tegundir á þennan hátt. Það er hægt að leigja út kvóta til útgerða á sanngjörnu verði og halda þessu öllu gangandi. Þetta hefur verið í ágætislagi hingað til, fyrir utan ósætti um hvernig skiptingin er á milli (Forseti hringir.) þeirra stærstu og minnstu. Þetta hefur gengið ágætlega og skilað þeim sem gera út ágætum hagnaði og mætti hafa skilað þjóðinni enn meir hagnaði með hærri veiðigjöldum fyrir þá sem mest hafa.