144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[17:32]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Talandi um jafnræði þá búum við við tekjuskattslöggjöf í landinu þar sem er þrepaskipt skattkerfi, hæstv. ráðherra, þrepaskipt skattkerfi. Er það ekki jafnræði, þetta þrepaskipta skattkerfi? Jú, það hefur að minnsta kosti ekki komið neitt fram um að það sé það ekki. Þess vegna tel ég að á sama hátt sé hægt að útfæra þrepaskipta gjaldtöku í veiðigjöldum, miðað við mismunandi útgerðarflokka. Það er vel hægt. Hæstv. ráðherra veit það alveg.

Talandi um það að menn séu nauðbeygðir og hreinlega reknir til að kvótasetja makríl vegna álits umboðsmanns Alþingis þá er með ólíkindum að hæstv. ráðherra komi með þau rök. Við höfum líka fengið álit, til að mynda hjá fyrrverandi hæstaréttarlögmanni, Magnúsi Thoroddsen, og fleirum sem segja að stjórnvöld hverju sinni geti breytt úthlutun aflaheimilda og breytt stjórn fiskveiða og það sé í höndum stjórnvalda að gera það. Erum við virkilega þannig stödd að við sitjum uppi með kvótakerfi sem er orðinn einhver óskapnaður og heldur áfram að vaxa og vaxa og enginn stjórnmálamaður hefur kjark til að breyta lögum sem breyta viðkomandi kerfi? Hvers konar rugl er þetta í hæstv. ráðherra? Erum við ekki löggjafinn hér? Er búið að binda hendur löggjafans svo til ómunatíðar að ekki sé fræðilegur möguleiki fyrir neina ríkisstjórn að breyta kerfinu? Auðvitað er þessi ríkisstjórn að reyna að setja þetta til langs tíma svo að sama ríkisstjórn þurfi að vera við völd í kannski (Forseti hringir.) þrjú kjörtímabil til hafa möguleika á að breyta kvótakerfinu. Er það þannig kerfi sem við viljum hafa? Ekki ég.