144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[17:42]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Fyrirtæki í uppsjávargeiranum leigði til að mynda makríl frá Færeyjum á 90 kr. árið 2013. Það er auðvitað mikill munur á uppsjávargeiranum og hinum, á hinum stóru fyrirtækjum og á minni útgerðunum, það segir sig sjálft. Þess vegna tala ég fyrir því að hafa þrepaskipta gjaldtöku í þremur þrepum álíka og var í tekjuskattskerfinu í makrílnum. Þar er ekki líku saman að jafna að borga 10 kr. fyrir eignarkvóta, þetta er eignarkvóti alveg eins og menn hafa eignarkvóta í bolfiskkerfinu og í aflamarkskerfinu í dag.

Hv. þingmaður segir að þjóðin eigi kvótann. Getur þjóðin farið með eitthvað í höndunum og innleyst þær upphæðir sem viðkomandi útgerðarmenn munu gera? Ég held varla. Þess vegna er það svo mikil sýndarmennska að tala um að þetta sé eign allrar þjóðarinnar þegar fáir aðilar fá kvótann með þessum hætti og þurfa að borga eitthvert málamyndagjald fyrir, 10 kr. Það nær auðvitað ekki nokkurri átt að verja svona aðgerðir. Það er ekki réttlæti. Menn geta haldið áfram að róa og gera út á makríl og afla sér tekna og hafa hag af því eins og menn eiga að gera í venjulegum fyrirtækjum og útgerðum af veiðum og af vinnslu og ekki taka til sín meira en þeir ráða við. Menn eiga auðvitað að hafa þær aflaheimildir sem þeir ætla að veiða sjálfir en ekki hafa það mikið af aflaheimildum að það gangi út á það að leigja öðrum og braska með þær.

Þess vegna held ég að hægt sé að gera þetta með sanngjarnari hætti (Forseti hringir.) og gera þjóðina sáttari. Þetta er til þess fallið að hella olíu á eldinn varðandi gagnrýni á kvótakerfið.