144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

698. mál
[17:45]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi á þskj. 1172, frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu er lagt til að frá og með árinu 2016 verði með auknum niðurgreiðslum tryggt að flutningur og dreifing á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis verði niðurgreidd að fullu hjá þeim sem ekki eiga kost á fullri hitun með jarðvarma. Frumvarpið byggir m.a. á tillögum í skýrslu starfshóps um breytingar á niðurgreiðslu til húshitunar frá desember 2011. Sá starfshópur var skipaður fulltrúum frá iðnaðarráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu, Samtökum sveitarfélaga á köldum svæðum, Rarik og Orkubúi Vestfjarða.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, sérstaklega í þessum sal, að ástæður þessa frumvarps má rekja til þess að talsverður munur er á orkukostnaði eftir landsvæðum og hefur hann farið vaxandi. Annars vegar er húshitunarkostnaður mun hærri hjá þeim 10% landsmanna sem ekki búa við hitaveitu og þurfa að notast við rafhitun til hitunar íbúðarhúsnæðis og hins vegar er dreifikostnaður raforku talsvert hærri í dreifbýli en í þéttbýli. Ríkisvaldið hefur reynt að koma til móts við báða þessi þætti á undanförnum árum með sérstökum niðurgreiðslum sem ákvarðaðar eru í fjárlögum hverju sinni á grundvelli sérlagaheimilda. Er þar annars vegar um að ræða lög nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, en þau mæla fyrir um niðurgreiðslu kostnaðar við hitun íbúðarhúsnæðis hjá þeim sem ekki eiga kost á fullri hitun með jarðvarma. Hins vegar er um að ræða lög nr. 98/2004, um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, en markmið þeirra er að stuðla að jöfnun þess kostnaðarmunar sem er við dreifingu raforku í þéttbýli og dreifbýli.

Með upptöku jöfnunargjalds á raforku, samanber lög um breytingu á lögum nr. 98/2004, sem samþykkt voru á Alþingi 3. mars sl., er tryggð full jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku til almennra notenda í dreifbýli og þéttbýli frá og með árinu 2016. Eftir stendur að tryggja það að flutningur og dreifing á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis verði að fullu niðurgreidd. Með frumvarpi þessu er það lagt til. Er sú tillaga eins og áður segir í samræmi við niðurstöður í skýrslu starfshóps frá desember 2011 um breytingar á niðurgreiðslu til húshitunar, sem og frumvarps þess efnis sem lagt var fram á 141. löggjafarþingi.

Enginn vafi er á því að hinn miklu húshitunarkostnaður sem um 10% landsmanna býr við hefur stuðlað að búseturöskun og veikt viðkomandi samfélög. Þessi þungi kostnaðarliður er í raun ávísun á lakari lífskjör og letur því fólk mjög til búsetu á þessum svæðum. Þetta stóra byggðamál snýst því ekki um stöðu landsbyggðar gagnvart höfuðborgarsvæðinu því að víða um land eru starfræktar ódýrar jarðvarmaveitur. Þetta snýst meira um jöfnun búsetuskilyrða almennt og jöfnun á möguleikum sveitarfélaga til að vaxa og dafna.

Þessi mál hefur oft borið á góma hér í þinginu og hefur almenn sátt verið um nauðsyn þess að jafna húshitunarkostnað á milli landsvæða. Bind ég því vonir við að samstaða geti náðst um framgang þessa þingmáls á Alþingi.

Efni frumvarpsins er tiltölulega einfalt og er í frumvarpinu fylgt þeirri tillögu sem framangreindur starfshópur lagði til, þ.e. að samkvæmt lögum nr. 78/2002 skuli flutningur til dreifingar á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis verða niðurgreiddur að fullu. Frumvarpið var unnið af hálfu ráðuneytisins í samstarfi við Orkustofnun og voru drög að frumvarpinu send til kynningar til Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum.

Í greinargerð með frumvarpinu er umfjöllun um áhrif þess verði það að lögum, bæði almennt á raforkunotendur og ríkissjóð. Ríkissjóður ver nú um 1.282 millj. kr í beinar niðurgreiðslur á flutningi og dreifingu raforku til húshitunar, eða um 80% á kostnaði íbúa við flutning og dreifingu raforku. Til að fjármagna 100% niðurgreiðslur á dreifingu og flutning á raforku til húshitunar, eins og stefnt er að með frumvarpinu, þyrfti að hækka niðurgreiðslurnar um 215 millj. kr. miðað við núverandi stöðu eða í 1.497 millj. kr. Verði frumvarpið að lögum mun frá og með árinu 2016 þurfa að auka framlög á fjárlögum um það sem því nemur sem að framan greinir.

Hæstv. forseti. Ég tel að með frumvarpi þessu sé verið að stíga mikilvægt skref í þá átt að jafna orkukostnað eftir landsvæðum og þar með búsetuskilyrði til samræmis við það sem fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna og einnig til samræmis við tillögur úr fyrrnefndri skýrslu. Ég tel því að um þetta mál ættum við að geta náð góðri samstöðu á Alþingi.

Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. atvinnuveganefndar og 2. umr.