144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

698. mál
[18:08]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það var ánægjulegt að fá þetta mál inn í þingið og virðist vera mjög almenn samstaða um að vinna því brautargengi hér. Það hefur ágætlega komið fram hver er aðdragandi þessa máls og það hefur auðvitað átt sér langan aðdraganda, m.a. með þeim starfshópi sem vann að málinu og skilaði tillögum í skýrslu árið 2011. Það urðu töluverð vonbrigði þegar menn fóru svo að stíga skrefin til þess að fylgja þeim tillögum eftir að við skyldum ekki ná að ljúka jöfnun á húshitunarkostnaði og dreifikostnaði raforku að fullu. Þar kom líka upp ágreiningur um eina af tillögum nefndarinnar sem var um hverjir ættu að greiða jöfnunina. Gagnrýnt var að jöfnunargjaldið sem lagt var á skyldi ekki ná til stóriðjunnar og þar með létt meira á heimilunum, lægra jöfnunargjald lagt á þau eins og nefndin hafði gert tillögu um. Ég held að við skulum láta það liggja milli hluta. Eins og ég skil þetta frumvarp er viðbótin sem þarf til þess að ná fullri jöfnun 215 millj. kr. á næsta ári og mér skilst að það eigi að koma beint úr ríkissjóði, þ.e. ekki verði lagt á frekara jöfnunargjald til þess að fjármagna þann kostnað.

Á síðastliðnu hausti tók Samfylkingin sig til og lagði fram þingsályktunartillögu um bráðaaðgerðir í byggðamálum. Það átti sér þann aðdraganda að segja má að við höfum sest niður og sagt upphátt og lagt á það mikla áherslu að það væri enginn jafnaðarmannaflokkur á Íslandi ef hann legði ekki áherslu á jöfnuð og jafnrétti á milli byggðarlaga, milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins. Í tillögu okkar voru talin upp ellefu atriði. Þetta atriði er eitt af þeim sem við lögðum til. Nú er hægt að krossa við það.

Mig langar aðeins að vekja athygli á öðrum þáttum sem er mikilvægt að fylgja eftir og tryggja að verði unnir í framhaldinu. Sumir þeirra eru í ferli og ber að fagna því, aðrir eru styttra komnir.

Í fyrsta lagi var rætt um það í tillögu okkar að nota aðferðafræði sóknaráætlana landshluta sem mikið hafði verið unnið í og var þverpólitísk samstaða um. Illu heilli var þeim hent út af borðinu við stjórnarskipti en þær hafa sem betur fer smátt og smátt verið að rata inn á borðið aftur vegna þess, eins og margt annað sem gerðist við stjórnarskiptin, að menn áttuðu sig á því að mikið af þeirri vinnu sem hafði verið unnin hafði verið unnin í býsna góðri sátt og þar að auki hafði aðferðafræðin verið afar vönduð. Sú vinna er að skila sér aftur inn á borðið þannig að þeir aðilar sem fjalla einmitt um málið, þ.e. heimaaðilar, fá tækifæri til að fjalla um sóknaráætlanir og hvernig fjárveitingum er dreift á viðkomandi svæðum.

Í öðru lagi var rætt um samgöngumálin. Það er ekki hægt að segja margt á meðan við höfum ekki séð nýja samgönguáætlun, en því miður held ég að sé algjört met hversu lítið er lagt til nýframkvæmda í samgöngumálum á þessu ári.

Í þriðja lagi var rætt um veiðigjaldið og að sjávarbyggðirnar fengju hlutdeild í þeim tekjum. Þetta hefur oft verið rætt og annar stjórnarflokkurinn a.m.k. hefur verið með þær hugmyndir líka. Þegar við förum í umræðuna um veiðigjaldið er mikilvægt að þessi möguleiki verði ræddur.

Fjórði liðurinn var um ívilnunarlöggjöf vegna nýfjárfestinga. Hæstv. ráðherra iðnaðarmála hefur það mál til meðferðar og þingið raunar í augnablikinu, en lögð var áhersla á það í tillögu okkar að löggjöfin yrði skoðuð sérstaklega með tilliti til uppbyggingar á landsbyggðinni, eða landsbyggðunum eins og við segjum.

Síðan kemur fimmti liðurinn sem er sá liður sem hér er til umræðu, þ.e. jafna húshitunarkostnað að fullu og fara eftir þeim tillögum sem lagðar voru fram af starfshópnum 2011.

Í sjötta lagi eru tillögur um Íbúðalánasjóð, að koma ónýttu húsnæði án tafar í notkun. Mér sýnist nú lítið hafa gerst í því. Í sjöunda lagi er tillaga um að sveitarfélögum verði gert kleift að fá hlutdeild í tekjum af ferðamönnum til þess að gera þeim fært, sérstaklega í landsbyggðunum, að skapa segla eins og það er kallað, þ.e. að skapa spennandi tilboð fyrir ferðamenn í viðkomandi sveitarfélögum. Þetta er auðvitað gríðarlega mikilvægt. Það eru mörg svæði sem þurfa aðhlynningar við. Ég verð að segja það að hæstv. ráðherra og stjórnarflokkarnir hafa lent í ógöngum með náttúrupassann, en miðað við þær tekjur sem ferðaþjónustan skapar og mikilvægi hennar fyrir þjóðarbúið í augnablikinu held ég að menn ættu að byrja á því að setja strax út fjármagn til að hægt sé að undirbúa að gera bragarbót á þeim ferðamannastöðum sem þurfa helst lagfæringar við. Um leið er mjög mikilvægt að fylgja því eftir að hægt verði að dreifa ferðamönnum, ef maður getur orðað það þannig, vinna að því að ferðamenn eigi kost á því að fara víðar og bæta þjónustuna úti á landsbyggðinni. Raunar hefur þetta komið fram. Ég var á fundi hjá Vinnumálastofnun þar sem verið var að ræða um atvinnuhorfur á Íslandi næstu tvö ár, 2015–2017. Þar kom fram, sem kom mér á óvart, að aukningin í vinnuafli, þ.e. fjölda sem stundar vinnu, var um 2.700 manns á síðasta ári og 96% af þeim voru í ferðaþjónustu. Í umræðum á þeim fundi kom klárlega fram það viðhorf að aukningin í ferðaþjónustu verður að eiga sér stað úti á landsbyggðinni. Það kallar á atvinnustefnu og einnig aukna menntun í ferðamannaiðnaðinum, og sú menntun þarf að eiga sér stað úti á landsbyggðinni, til að tryggja að viðkomandi aðilar starfi þar og byggi upp bæði menntun, þekkingu og gæði í ferðaþjónustu í landsbyggðunum.

Áttundi punkturinn hjá okkur var uppbygging á háhraðatengingum og hringtengingum ljósleiðara um allt land. Sú vinna er í fullum gangi. Ég veit að hv. þm. Haraldur Benediktsson hefur leitt þá vinnu og fyrirheit hafa verið gefin um fyrstu fjárveitingar í þá framkvæmd. Því ber að fagna og við munum styðja frekari uppbyggingu hvað það varðar.

Níundi liðurinn tengist þessu mál hér beint, en það er raforkuöryggi. Á nokkrum svæðum á landsbyggðunum er raforkuöryggi ekki til staðar. Vestfirðir hafa til dæmis ítrekað verið nefndir í því samhengi. Það eru fleiri staðir þar sem ekki eru hringtengingar og ef rafmagn fer af getur tekið býsna langan tíma að koma því á aftur. Ég veit að unnið er að þessu, en hversu hratt það gengur hef ég ekki nýjustu fréttir af.

Í tíunda lagi er það jöfnun flutningskostnaðar. Þrátt fyrir veikburða fjárhagsstöðu ríkissjóðs eftir hrunið þá var loksins komið á jöfnun flutningskostnaðar en það þarf að þróa þær styrkveitingar eða það kerfi betur.

Að lokum eru það almenn ákvæði um að við verðum að gæta að menntun um allt land sem og að tryggja öryggi sjúklinga og gæði heilbrigðisþjónustu um allt land. En það eru blikur á lofti, sérstaklega varðandi menntunina. Sumir af landsbyggðarskólunum eru í mikilli hættu bæði vegna styttingar náms og vegna þeirra breytinga sem eru að verða á þátttöku 25 ára og eldri í menntakerfinu.

Það frumvarp sem hér liggur fyrir skiptir gríðarlega miklu máli fyrir byggðir á svokölluðum köldum svæðum sem eru einkum á Austurlandi, Snæfellsnesi og Vestfjörðum eins og hér kemur fram. Snæfellsnesið utanvert hefur búið við þetta í mörg ár og borgað gríðarlega háan húshitunarkostnað. Sama gildir nánast um öll byggðarlög á Vestfjörðum, annaðhvort eru menn þar með kyndistöðvar, jafnvel með olíu eða með rafmagni sem þeir hafa þurft að borga gríðarlega mikið fyrir. Ég hvet ráðherra og Alþingi raunar til dáða þannig að við fylgjum þessu eftir og mögulegt verði að ljúka þessum störfum.

Það er athyglisvert að skoða umsögn fjármálaráðuneytisins. Ég vona að það álit trufli ekki framgang málsins. Talað er um að þetta kosti 215 millj. kr. á árinu 2016 og það hefur komið fram fyrr í umræðunni, en ekki er gert ráð fyrir því í útgjaldaramma í fjárlögum eða í nýframlagðri fjögurra ára ríkisfjármálaáætlun. Ég treysti bara á að það verði leiðrétt þannig að ekki verði áhöld um það. Auðvitað er alltaf fyrirvari á fjárveitingum þegar þær þurfa að koma frá Alþingi, að Alþingi tryggi að þær verði inni á næsta ári þannig að hægt verði að standa við loforð og fyrirheit sem gefin eru með þessu lagafrumvarpi.