144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

698. mál
[18:25]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum áfanga að jöfnun á húshitunarkostnaði landsmanna. Ég get, eins og aðrir hv. þingmenn, fagnað því að frumvarpið hafi verið lagt fram og búið sé að taka þá ákvörðun, eða leggja til af hæstv. ráðherra, að full niðurgreiðsla komi til vegna flutnings og dreifingar á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis fyrir þá sem ekki eiga kost á fullri hitun með jarðvarma. Það er vissulega mikill og góður áfangi.

Eins og fram kom hjá hv. þm. Haraldi Benediktssyni erum við ekki búin að ganga götuna til enda varðandi jöfnun húshitunarkostnaðar allra landsmanna. Það verkefni bíður okkar og við verðum að halda áfram að vinna að því að sú jöfnun verði til staðar. Gífurlegur munur er á kjörum fólks, varðandi kostnað við að kynda upp hýbýli, eftir því hvar á landinu það býr. Við ræddum einhvern tímann jöfnun á dreifingu á rafmagni. Þá lögðum við til, ég og hv. þm. Kristján Möller, eins og hv. þingmaður kom inn á, að stórfyrirtækin yrðu með í þeirri jöfnun. Það náðist ekki fram og var eingöngu um að ræða jöfnun innan dreifiveitna og tel ég að það hafi verið slæm niðurstaða.

Hér er lagt til að ekki verði haldið áfram að jafna innbyrðis í kerfinu hvað varðar niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði varðandi flutninginn frá þeim sem geta ekki nýtt beinar hitaveitur heldur eru með fjarvarmaveitur — að ríkissjóður komi þar inn og hæstv. ráðherra hefur kynnt að það verði fjármagnað og tryggt sé að slíkt verði lagt til í næstu fjárlagagerð. Það er vissulega áfangi sem ég held að við munum reyna að koma eins hratt í gegnum þingið og við getum. Málið fer til atvinnuveganefndar þar sem við setjum þetta vonandi á forgangslista, ég hef ekki trú á öðru en þverpólitísk samstaða sé um að það verði gert.

Ég er aðeins hugsi yfir töflunni sem er sett upp sem fylgiskjal og verð að viðurkenna að ég hef ekki haft nægan tíma til að skoða það mál sem slíkt. Ég sé að samanburðurinn er á milli ýmissa staða, hvort sem orkusalinn er Rarik, Orkubúið eða dýr hitaveita, þá er miðað við ákveðna orkunotkun svo að samanburðurinn innbyrðis er algjörlega réttur. En þær stinga mig aðeins þær tölur sem koma hér fram, um að á Ísafirði, eftir þessa breytingu, nýtt kerfi, kosti rúmar 180.000 kr. að kynda 180 fermetra einbýli, miðað við ákveðna orkunotkun, og lækki úr rúmum 213.000 kr., það eru töluverðir fjármunir, lækkunin á upphæðinni.

Þó maður eigi ekki að vera sjálflægur í ræðustól Alþingis þá hef ég áður getið þess að ég bý á Suðureyri og á þar einbýlishús. Á ársgrundvelli kostar 300.000 kr. að kynda það og samt er það minna en það 180 fermetra hús sem þarna er haft sem viðmið. Mér finnst þetta svolítil blekking, ef horft er á það hvað það kostar í veruleikanum að kynda húsnæðið. Dregin er upp sviðsmynd af 100 fermetrum í fjölbýli, 140 fermetra raðhúsi og 180 fermetra einbýli. Því miður er þetta, held ég, ekki veruleikinn á þessum köldu svæðum. Samanburðurinn stendur eftir sem áður fyrir sínu þar sem verið er að tala um sambærilega notkun á milli Reykjavíkur og þessara staða úti á landi í orkunotkun í kílóvattstundum.

Ég vil lýsa ánægju minni með það að á þessum ágæta degi — fyrrverandi forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, á afmæli, hún er 85 ára, ég nota tækifærið til að óska henni til hamingju með daginn — komi fram frumvarp frá ríkisstjórninni sem hægt er að fagna. Ekki átti það við um frumvarpið sem var flutt hér á undan, en það er gott að hægt sé að ljúka deginum í ánægju með þetta frumvarp.