144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

704. mál
[18:46]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum framsöguna. Það eru nokkur atriði sem ég er að velta hér fyrir mér og ætla að fara betur yfir á eftir, bæði það sem er gott og eins það sem ég hef áhyggjur af.

Mig langaði, af því að við erum að reyna að einfalda kerfið, að velta upp spurningu. Í 1. gr. er meðal annars talað um heimagistinguna, lögheimilið og eina aðra fasteign í eigu fólks. Ég á íbúð í Reykjavík og lögheimili norður í landi og ég get leigt íbúðina í átta vikur. Það er til þess gert að sporna gegn því, og ég styð það, að íbúðir séu leigðar út í leyfisleysi, sem er gert út um allt. En ég velti samt fyrir mér hvernig við getum tryggt þessar átta vikur.

Hvernig getur sýslumaður eða einhver annar tryggt að ég leigi íbúðina mína ekki út allt sumarið? Hvernig ætlum við að ná utan um þetta? Það er eitt að segja þetta og annað að framfylgja því, sérstaklega kannski á höfuðborgarsvæðinu.