144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

704. mál
[19:07]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar að fara í gegnum þetta mál en eins og hér hefur komið fram hef ég aðeins áhyggjur af því. Ég skil hugmyndafræðina og tilganginn með frumvarpinu. Við höfum talað mikið um þessa svörtu atvinnustarfsemi og eflaust hefur farið fram töluverð vinna í starfshópnum til að reyna að ná utan um þennan vanda. Ég hef efasemdir um að frumvarpið geri það af því að ég sé ekki, eins og ég sagði áðan, hvatann í því fyrir fólk að breyta hegðun sinni. Ég held líka að það fólk sem leigir út íbúðirnar sínar eða húsið sitt líti ekki á sig sem glæpamenn eins og hæstv. ráðherra komst að orði og vilji stunda þetta með lögmætum hætti. Mér finnst ég ekki skynja í gegnum frumvarpið eitthvað sem dregur það upp á yfirborðið að fólk muni vilja skrá sig. Það kostar fyrirhöfn, það kostar peninga og því skyldi fólk þá gera það sem hefur komist upp með að stunda ólöglega atvinnustarfsemi? Þetta er vissulega ekkert annað en það, fólk hefur af þessu tekjur, hvort sem það er til skemmri eða lengri tíma. Ég velti þessu fyrir mér. Eins og hæstv. ráðherra sagði rétt áðan þá eru skýrar reglur um þetta en samt sem áður er mikið um ólöglega starfsemi.

Á bls. 4 í frumvarpinu er fjallað um að leyfisveitendur gististaða á landinu, sýslumannsembættin, telji að fjöldi gististaða sé ranglega skilgreindur og hafi leyfi í röngum flokki. Til dæmis skrái margir starfsemi sína í flokki I fyrir heimagistingu, en þeir reki hins vegar íbúðagistingu eða gistiheimili. Við virðumst ekki ná utan um þetta í dag. Og mér finnst ekki koma fram í frumvarpinu eitthvað sem sýnir að við munum ná utan um þetta.

Það kemur líka fram á þessari sömu blaðsíðu að það sé umfangsmikið verkefni að hafa eftirlit með þessum málaflokki og þörf á að tryggja fjármagn og mannafla. Ég tek undir þær áhyggjur. Eins og ég lýsti áðan höfum við sett lög og reglur í gegnum tíðina en svo eru miklir annmarkar á eftirfylgni. Ég sé mikla annmarka á eftirfylgni í þessum efnum og í sjálfu sér hefur ótrúlega fáum stöðum verið lokað miðað við hvað margir virðast stunda þessa starfsemi. Þá finnst mér engar viðbótarheimildir til handa lögreglu vera í frumvarpinu sem segja að hægt sé að grípa inn í og loka, þó að í 3. gr. sé heimild til handa sýslumanni til þess að afskrá heimagistingu ef einstaklingur hefur orðið uppvís að því að leigja út eignir til lengri tíma en átta vikna og jafnvel margoft. Þar er þá komin einhver skráning sem maður er brotlegur gagnvart eins og ég rakti hér áðan ef einhver leigir í leyfisleysi. Ég þekki þetta sem þingmaður. Þegar ég var kjörin á þing og flutti hingað þá var ég að leita mér að húsnæði. Mér stóð til boða húsnæði yfir sumartímann í einar 12 vikur og ég leitaði víða og stór hluti af því húsnæði var ekki skráð. Það eru auðvitað einhverjir sem eru í skóla, eru með húsnæði á leigu allt árið, en leigja svo til þriðja aðila allt sumarleyfið, þ.e. júní, júlí, ágúst, skólar jafnvel búnir í maí o.s.frv. Við erum líka með þessa starfsemi. Það er ekki beinlínis atvinnustarfsemi, heldur er viðkomandi að ná upp í tiltekna húsaleigu og kannski rúmlega það. Þetta er samt gert og eins og ég segi virðist ekki vera mikið eftirlit með því.

Ég tek undir að hugmyndafræðin í frumvarpinu er góð, að reyna að ná utan um þessa svörtu starfsemi og ég styð það af því að ég held að það sé eitthvað sem þurfi að lagfæra. Það að leigja út lögheimili sitt og/eða aðra fasteign sem maður á til skemmri tíma er í sjálfu sér eitthvað sem fólk hefur gert og breytist kannski ekki mikið við það að þetta frumvarp verði samþykkt, eins og ég segi. Ég hef efasemdir um að fólk nenni að standa í því að skrá sig og borga fyrir það.

Mig langar aðeins að fara í gegnum frumvarpið. Þar er fjallað um breytta flokkun veitingastaða og mér finnst það mjög jákvæð breyting þar sem í hluta eiga litlir veitingastaðir sem vilja hafa eldhúsið opið lengur en til kl. 23, en hafa þurft að borga fyrir það frekar hátt gjald miðað við veltu. Mér finnst mjög jákvætt að sú tímaviðmiðun sé tekin í burtu og umsögnin sett í hendur leyfisveitanda, sem eru garnan sýslumenn og sveitarfélög. Hér er einmitt talað um að Reykjavíkurborg hafi lagt skýrar línur hvað varðar opnunartíma veitingastaða og önnur sveitarfélög gætu tekið sér það til fyrirmyndar. Ég tek undir það. Ég held að þetta sé af hinu góða og verður kannski einmitt til þess að auka enn frekar fjölbreytta flóru veitingastaða, kannski sérstaklega á hinum minni stöðum.

Hér er talað um að sýslumenn eigi að annast skráningu á vefsíðu sinni og einnig hluta eftirlits með skráningu og starfsemi heimagistinga og fjallað um að það kalli auðvitað á vinnu, mannafla og fjárframlag af hálfu sýslumannsembættanna. Hér er lagt til eitt stöðugildi hjá sýslumanninum í Reykjavík og það stafar væntanlega af því að mest af því húsnæði sem hér er verið að reyna að ná utan um er á stórhöfuðborgarsvæðinu. Eins og ég sagði áðan þá sé ég ekki fyrir mér hvernig það á að duga til.

Í athugasemdum við 1. gr. er vitnað til þess að fólk hafi verið að gera átta daga leigusamninga til þess að komast undan því að falla undir lögin. Með 1. gr. er gerð breyting þar sem tekið er fram að lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald eigi við um gistingu sem boðin er ekki lengur en til 30 daga í senn. Þá þarf að gera breytingar á húsaleigulögum í frumvarpi sem félags- og húsnæðismálaráðherra á að leggja fram. Ég velti fyrir mér: Þarf að samþykkja það frumvarp áður en þessi lög taka gildi? Eða geta þessi lög tekið gildi með fyrirvara um að síðar verði frumvarp félags- og húsnæðismálaráðherra lagt fram? Ráðherra svarar því kannski þegar hún lokar umræðunni á eftir.

Síðar í athugasemdum við 1. gr. er fjallað um lögheimili einstaklings og heimagistingu og rætt um skilgreiningu á heimagistingu. Hún verði miðuð við útleigu á mest fimm herbergjum og gistingu með mest tíu rúmum. Þar er verið að breyta í samræmi við byggingarreglugerð þar sem gerðar eru aðrar og ríkari kröfur til húsnæðis fyrir fleiri en tíu manns. Mér finnst það reyndar svolítið skondið að ég get sloppið við að vera t.d. með brunavarnarhurðir ef ég leigi út húsnæði fyrir tíu manns, en ef ég leigi út fyrir tólf þá þarf ég að vera með eldvarnarhurðir í öllu. Þetta finnst mér svolítið kjánalegt. En reglugerðin er samþykkt svona. Ég hafði nú orð á því á sínum tíma þegar ég las reglugerðina að mér fyndist þetta eiga að vera bara annaðhvort/eða. Mér finnst ekki að það eigi að fara eftir því hvort ég hýsi tíu manns eða tólf, ef ég leigi tíu manns sé í lagi að brunavarnir séu minni.

Svo er annar liður hér, c-liður 1. gr., sem mér þykir líka ágætur, að ekki þyki lengur ástæða til að hafa sérstakan flokk fyrir gististaði sem hafa mínibar á herbergjunum. Mér finnst það kannski barn síns tíma sem er ágætt að taka á.

Ég vil nefna aðeins 3. gr., hvort ég skilji hana rétt. Þar er talað um að skráningargjald vegna heimagistingar eigi að vera mjög hóflegt og einstaklingur þurfi að skrá sig á hverju almanaksári ef hann ætli sér að nýta húsnæði sitt til útleigu. En svo er í 10. gr. talað um aukatekjur í ríkissjóð, 8 þús. kr. heimagistingargjald. Er þetta það sama? Mér finnst þetta ruglingslegt. Ef þetta er sama gjaldið, af hverju er það þá tiltekið í báðum þessum greinum? Í umsögn fjármálaráðuneytisins er talað um 8 þús. kr. skráningargjald og að í lauslegri áætlun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sé gert ráð fyrir að tekjurnar geti orðið í kringum 4–8 millj. kr. á ári, sem eigi þá að dekka stöðugildi hjá sýslumanninum, að mér skilst, og umsýslu, fyrir utan kannski 3 millj. kr. sem koma til vegna forritunar- og kerfisvinnu í tengslum við vefsíðuna. Fjármálaráðuneytið gerir því ekki ráð fyrir neinum auknum kostnaði árlega. Ég velti þessu fyrir mér af því að í 3. gr. er talað um hóflegt gjald á hverju almanaksári en í 10. gr. er sagt að skráningargjald sé 8 þús. kr. Ég bendi á þetta og kannski er þetta eitthvað sem má lagfæra.

Mig langar í lokin að koma inn á 5. gr. Ég ræddi aðeins um fjöleignarhús við ráðherrann í andsvari áðan. Hún vitnaði í að ef leigt væri út til lengri tíma færi með það eftir lögum um fjöleignarhús og allir eigendur í húsinu þyrftu að samþykkja. Segjum að ég keypti mér nú þrjár íbúðir í fjöleignarhúsi og hefði lögheimili í einni, barnið mitt í annarri og eitthvað slíkt, eins og hægt er að gera, og hvað ef ég væri að leigja þetta út? Þar sem ég bý í dag, á höfuðborgarsvæðinu, er svoleiðis íbúð í húsnæðinu sem er leigð út. (Gripið fram í: … að samþykkja …?) Ég hef ekki hugmynd um það, ég hef ekki kynnt mér það, en það er verið að leigja út íbúðina í tíma og ótíma. Í þessu tilfelli er ekki beinlínis ónæði af því, en af því ég er til þess að gera nýflutt í húsið þá veit ég ekki hvort eitthvert samþykki liggi fyrir af hálfu húsfélagsins um þetta. Það er ekki ónæði, það er ekki þannig, ég er bara að hugsa þetta upphátt og velti því fyrir mér hvernig við náum utan um þetta. Sums staðar er keypt þjónusta í stigagöngum og þá tekur viðkomandi íbúðareigandi þátt í því, þ.e. sá sem er að leigja út íbúð sína til lengri eða skemmri tíma, en sums staðar er það ekki þannig. Það geta komið upp áhyggjur varðandi það hvort viðkomandi taki þátt í því fjöleignarsamstarfi sem skapast í fjölbýlishúsum.

Í 27. gr. laga um fjöleignarhús er ákvæði um breytingar á hagnýtingu séreignar og samþykki allra eigenda hússins, en síðan kemur fram, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur eigandi ekki sett sig á móti slíkri breytingu ef sýnt er að hún hefur ekki í för með sér neina röskun á lögmætum hagsmunum hans.“

Þetta þarf líka að hafa í huga. Í sömu grein er líka talað um breytta hagnýtingu sem ekki er veruleg, þá sé nægilegt að samþykki einfalds meiri hluta miðað við fjölda og eignarhluta liggi fyrir, en svo er líka komið inn á sérstaka truflun og allt það. Ég hef aðeins áhyggjur af þessum atriðum en þetta kemur kannski betur í ljós í umfjöllun nefndarinnar og vonandi gerir það það varðandi akkúrat þetta. Þeir þekkja það sem búa í fjöleignarhúsi að þar er mynduð hússtjórn og við þekkjum það sem höfum búið í fjölbýli að það er ekkert endilega þannig að allir séu virkir þátttakendur í sameigninni. Þetta getur skipt máli. Ef viðkomandi sækir ekki um leyfi þá er auðvitað hægt að kvarta og það er hægt að tilkynna o.s.frv. En ég velti fyrir mér hvernig eigi að ná utan um það ef maður á þarna lögheimili og segist vera að leigja ættingjum sínum o.s.frv., sem við þekkjum líka dæmi um eða ég þekki að minnsta kosti dæmi um svoleiðis. Eins og ég segi, mér finnst ég ekki beinlínis finna í frumvarpinu hvatann fyrir fólk til þess að breyta út af hegðun sinni í þessum efnum. En ég vona svo sannarlega að við náum betur utan um þennan markað því það er svo sannarlega full þörf á því.