144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

704. mál
[19:22]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir fór mjög vel yfir málið, enda þekkir hún þetta málefni mjög vel. Það kom fram í ræðu hennar að hún væri sátt og ánægð með tilganginn og hugmyndafræðina — og jafnframt fór hæstv. ráðherra mjög vel yfir málið í byrjun. Ég vil nota tækifærið hér og taka undir orð hennar. Ég er afar sáttur við meginefni frumvarpsins og tilgang þess og hugmyndafræði, það er í samræmi við meginniðurstöðu skýrslu Rannsóknarstofnunar atvinnulífsins þar sem svört atvinnustarfsemi er stórt vandamál í gistiþjónustu, fjöldi óskráðra og leyfislausra gististaða.

Mig langar að spyrja hv. þingmann — hún hafði vissar áhyggjur af eftirliti og skráningu — hvort hún gæti upplýst mig betur um það, hvernig hún lítur á það mál.