144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

704. mál
[19:23]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að svara hv. þingmanni að öðru leyti en því að ég hef áhyggjur af því að þeir sem nú þegar stunda ólöglega starfsemi verði dregnir upp á yfirborðið með því sem hér er lagt fram en það kostar vinnu og fyrirhöfn og það kostar eftirlit. Það er kannski fyrst og fremst það. Ég veit að við verðum á einhvern hátt að ná til þessa fólks, höfða til samvisku þess, en ég veit ekki hvort við gerum það með aukinni umsýslu þess sjálfs.

Vissulega er líka verið að reyna að einfalda kerfið. Það má ekki gleyma því að þarna er undirliggjandi að einfalda sumt í þessu leyfiskerfi. En ég hef ekki patentlausn í því hvernig við eigum að sækja fólk til að fá það til að skrá sig. Þess vegna hef ég líka áhyggjur af eftirlitsþættinum. Hvernig á lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að pikka út einstaklinga sem ekki sækja um leyfi ef henni er ekki bent á þá? Ef lögreglan fær ekki tilkynningu um það þá veit ég ekki hvernig hún á að sækja fólkið og hvetja það til að sækja um leyfi.

Sumt liggur fyrir, sérstaklega varðandi veitingabransann, það liggur fyrir en það er allt annað varðandi heimagistinguna, það er það sem maður hefur áhyggjur af. En ég hef ekki patentlausn á því hvernig við eigum að gera þetta. Þetta er tilraunarinnar virði, en þá þurfum við að vera meðvituð um að eftirlitsþátturinn er ekki nægjanlega sterkur í frumvarpinu.