144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

704. mál
[19:29]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Fyrst af öllu vona ég að það sem ég hafði hér uppi í andsvörum áðan hafi ekki fyllt hug hæstv. ráðherra því að ég sé á móti frumvarpinu eða hafi stórar athugasemdir við það. Auðvitað fagna ég því að verið er að einfalda þessi mál, fagna því mjög, og ég mun gera allt sem ég get, bæði hér í þessum sal og í atvinnuveganefnd, til þess að greiða leið þessa máls í gegnum þingið.

Ég óttast hins vegar dálítið að við séum að byrja á öfugum enda. Ég held, og ég tel mig eiginlega hafa vissu fyrir því, að sú gisting sem þarna er tiltekin sé einungis toppurinn á ísjakanum í þessu máli. Ég tel reyndar, og hef nokkra vissu fyrir því, að við töpum mestu og að hættan sé mest hvað varðar óskráðar gistingar þar sem útleigan varir allt árið. Nú er það svolítið gamaldags, finnst mér, að fókusera á átta vikna gistingu yfir háannatímann vegna þess að allir vita að annatíminn í ferðaþjónustu er að lengjast gríðarlega mikið.

Vöxturinn hefur verið gríðarlega mikill, eins og við vitum. Það er því í fyrsta lagi skylda okkar að huga að því að gistingin sem seld er hér á landi sé örugg; óskráð gistirými hafa ekki farið í gegnum nálarauga eldvarnaeftirlits. Við þurfum í öðru lagi að tryggja að gistirýmið sé þannig úr garði gert að ferðamenn sem nýta sér það vilji koma hingað aftur.

Ég sagði í andsvari mínu áðan að óskráð gistirými hér á höfuðborgarsvæðinu væru jafnmörg og öll hótelherbergi, það var mér sagt af rekstraraðila í þessari grein. Ég hef hvatt hæstv. ráðherra til þess að taka höndum saman við kollega sinn, hæstv. innanríkisráðherra, og sjá til þess að þeim eftirlitsleiðum sem nú eru færar verði beitt jafnhliða því sem við afgreiðum frumvarpið. Ég vona sannarlega að sá tími sem það tekur að afgreiða málið verði ekki til þess að fresta því nauðsynlega eftirliti sem við þurfum að hafa með þessari grein. Ég hef hvatt bæði fyrrverandi og núverandi innanríkisráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og mun gera það enn og nú, til þess að gera gangskör að því að lögreglunni verði veitt fjármagn til þess að fara í alvörueftirlit með óskráðum gistirýmum. Ef maður flettir Airbnb tekur maður eftir því að mjög stór hluti þar er í leigu á heilsársbasis og er óskráður. Ég hef talað við fyrrverandi félaga mína í lögreglunni og ég hef spurt þá hvort það sé gerlegt að halda uppi eftirliti með þessum gististöðum samhliða hefðbundnu eftirliti lögreglu, þ.e. þegar menn eru bara í eftirlitsakstri. Menn hafa fullyrt við mig að það sé alveg hægt. Auðvitað er það alveg hægt vegna þess að heimilisföngin liggja fyrir. Það er auglýst á Airbnb og mér hefur verið sagt, af hálfu forustumanna Samtaka ferðaþjónustunnar, að SAF hafi sent heimilisfangalista til ráðuneytisins. Það ætti þá að vera hægur vandinn fyrir menn að taka hvert póstnúmer fyrir og ganga úr skugga um að gistimöguleikar í þeim póstnúmerum séu rétt skráðir og sekta menn sem ekki uppfylla það skilyrði.

Ég hef líka heyrt, til dæmis á leigubílstjórum, að þeir séu að aka ferðamönnum að húsnæði sem líti alls ekki út fyrir að vera í því standi að hægt sé að leigja það út. Þá kemur aftur að því sem ég sagði hér áðan, við þurfum að tryggja að upplifun ferðamanna sé á þann veg að þeir vilji koma aftur og við þurfum að tryggja öryggi þeirra, fyrir utan það að við viljum auðvitað að þessi atvinnugrein skili sínu. Það er algjörlega óþolandi, ef rétt er, að svona stór partur af þessari starfsemi sé neðan jarðar, eins og sagt er. Það er bæði óþolandi fyrir þá sem standa sig, það er óþolandi fyrir atvinnugreinina, sem er orðin svo mikilvæg, að liggja undir þessum áburði, sem virðist vera meira en áburður. Þess vegna verðum við að tryggja að þessir hlutir séu í lagi og þessi starfsemi komi upp á yfirborðið.

Ég hef líka ákveðna vissu fyrir því að þessir gististaðir sem ekki eru skráðir taki við kreditkortagreiðslum en séu ekki með neinn samning við innlend kreditkortafyrirtæki. Þeir eru með samninga við kreditkortafyrirtæki erlendis. Þeir nota svokallað paypal-kerfi. Það verður til þess að þessar greiðslur sjást aldrei á Íslandi. Aldrei. Og það er ekki hægt að rekja þær. Þess vegna hvet ég líka til þess að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir því að farið verði út í samvinnu við kreditkortafyrirtækin til þess að reyna að stemma þá á að ósi. Vegna þess að það er svo ótrúlega vont ástand í þessari grein.

Ég hvet menn til þess að leiða hugann að því að um síðustu páska tæmdust allir hraðbankar í Reykjavík. Það skyldi þó ekki vera að ein ástæðan fyrir því sé sú að þegar ferðamenn vilja gera upp gistinguna með korti þá sé þeim gjarnan sagt: Nei, heyrðu, posinn er bilaður! Það skyldi ekki vera að sú staða hafi orðið til þess með öðru að hraðbankar tæmdust um síðustu páska?

Í stuttu máli ætla ég að segja: Auðvitað mun ég gera mitt besta með öðrum til þess að greiða leið frumvarpsins hér í gegn, en ég vil ítreka hvatningu mína til hæstv. ráðherra í þá veru að nú þegar verði farið í að tryggja lögreglu fjármagn, ef það er það sem þarf, til þess að fara hús úr húsi í eftirlit með þessari starfsemi. Þetta skiptir okkur öll miklu máli, ástandið eins og það er núna er óþolandi. Þetta er gott skref í einföldun. Þetta er gott skref, en mér finnst svolítið eins og við séum að byrja á öfugum enda. Við þurfum að ráðast að þeim sem eru með óskráðar heilsársgistingar og reyna að fá þá upp á yfirborðið með einhverju móti. En að öðru leyti, eins og ég hefur áður sagt, mun ég gera mitt besta til þess að tryggja framgang þessa máls.