144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

704. mál
[19:37]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka þessa umræðu. Ef ég vík orðum mínum fyrst að hv. síðasta ræðumanni þá tek ég alveg undir það með honum að það er algjörlega óþolandi, sérstaklega fyrir þá sem eru með allt í lagi, að liggja stöðugt undir ámæli fyrir að gera hlutina ekki löglega, það á við í þessari atvinnugrein eins og öllum öðrum. Einhvers staðar verðum við að byrja.

Til að ná utan um málið eru nokkra leiðir. Þessi leið snýr að því að einfalda skráninguna, einfalda regluverkið til að hvetja fólk til þess að koma með þetta upp á yfirborðið, þessa tegund. Það er hún sem við erum að tala um hér. Þetta er fyrsta skrefið, næsta skref er þá næsti flokkur og stærri tegund gistingarinnar. Ég vonaðist til þess að við gætum komið með heildarendurskoðun á þessum lögum á þessu þingi, en hópurinn þurfti meiri tíma til að ná utan um verkefnið. Í staðinn fyrir að láta allt bíða vildi ég koma með það sem hópurinn var búinn að klára til að við gætum byrjað á þessari gistingu.

Það hafa nokkur atriði verið rædd. Annars vegar eru það þeir sem eru í atvinnustarfsemi og leigja íbúðir, hvort sem þeir eru svo mikið undir yfirborðinu að þeir eru ekki lögaðilar heldur einstaklingar sem leigja húsnæði sitt ólöglega allt árið um kring eða ekki, eins og mér fannst hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir vera að tala um og hafa kannski mestar áhyggjur af. Við erum með þessu að reyna að ná til þeirra sem hafa kvartað mest yfir því hversu flókið kerfið er og kvartað yfir því að geta ekki með einföldum hætti skráð sig til þess að geta gert hlutina löglega. Ég er dálítið hugsi yfir umræðunni áðan hjá hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um það hver hvatinn sé til að skrá sig, þetta sé fyrirhöfn. Þeir sem ég hef talað við og hafa verið í þessari stöðu eru akkúrat hinum megin. Af hverju er ekki hvati fyrir mig til að koma hér upp? Ég vil gera hlutina löglega. Ég held, og það er kannski bjartsýni af minni hálfu en það kemur þá í ljós, að þetta muni verða til þess að venjulega fólkið, sem er í þessu til að ná sér í aukatekjur hluta úr ári, muni koma hér.

Varðandi eftirlitið. Það getur vel verið að það sé vanáætlað í þessu frumvarpi. Það er eitthvað sem ég hvet nefndina til að skoða. Auðvitað kostar það fjármuni. Ég bendi hins vegar á að það er þegar samstarf og hv. þingmaður benti á listana sem Samtök ferðaþjónustunnar hafa í gegnum tíðina afhent til að mynda skattstjóra og lögreglunni til að benda á eftirlitslausa gistingu. Það samstarf er enn við lýði hjá skattinum og á milli fleiri aðila í atvinnulífinu sem allir hafa það markmið að reyna að stemma stigu við þessari þróun.

Ég hvet nefndina til að skoða það að bæta þurfi í eftirlitið. Hugsunin með þessu var að leyfa því að fara af stað á þennan hátt. Mér hugnast það betur persónulega vegna þess að mér finnst það ekki vænlegt fyrsta skref að lögreglan gangi íbúð úr íbúð og húsi úr húsi. Ég held að við ættum frekar að hefja þennan leiðangur með það að leiðarljósi að treysta fólki og hafa trú á hugmyndafræðinni, sem er að með einföldun á regluverkinu skapist hvatar hjá fólki til þess að koma málunum í lag. Það er það sem þetta mál gengur út á.

Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir sagði: Það eru skýrar reglur núna en samt svindlar fólk. Mín skoðun er sú að það sé að hluta til vegna þess að kerfið er of flókið. Þegar verið er að sækja um leyfi fyrir lítið gistiheimili þarf að sækja um leyfi eins og um sé að ræða mörg hundruð herbergja hótel. Það vex fólki í augum, hvort sem það eru einstaklingar eða smáfyrirtæki. Þess vegna held ég að margt af þessu hafi farið undir yfirborðið.

Þingmaðurinn spurði einnig hvort breyta þyrfti húsaleigulögunum núna til samræmis, eins og getið er um hér. Í vinnu við þessa frumvarpssmíð var gott samstarf og samvinna á milli ráðuneytis míns og velferðarráðuneytisins. Ég veit ekki betur, en bið þingmenn um að taka því með þeim fyrirvara að ég hef ekki kannað það eftir að frumvarpið kom fram, en að þessi ákvæði hefðu átt að koma inn í frumvörp hæstv. félagsmálaráðherra sem hefur þegar lagt fram breytingar á þessum húsaleigulögum.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég heyri þær athugasemdir sem hér hafa komið fram. Ég heyri að það er eftirlitið fyrst og síðast sem menn hafa áhyggjur af. Eins og ég segi hvet ég hv. atvinnuveganefnd til að skoða þau mál til hlítar og vona svo sannarlega að við getum náð að klára þetta fyrir vorið, fyrir sumartraffíkina. Þannig getum við metið reynsluna sem allra fyrst og haldið áfram og komið reynslunni ríkari á haustþinginu að framkvæmd þessa frumvarps með enn frekari endurbætur og enn frekari einföldun á regluverkinu, sem er þá víðtækari og nær til fleiri flokka gististaða, þannig getum við haldið áfram að ná utan um þennan vanda.

Ég þakka þingmönnum fyrir umræðuna og vonast eftir góðum framgangi þessa máls innan nefndarinnar. (Gripið fram í: Gott mál.)