144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

framlag ríkisstjórnarinnar í kjaraviðræður.

[10:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég hef gríðarlegar áhyggjur af stöðu mála á vinnumarkaði. Nýjustu tíðindin af kjaraviðræðum eru nú ekki björguleg þegar stjórnarmenn í HB Granda ákveða að hækka laun sín en eru hins vegar nýlega búnir að bjóða starfsmönnum íspinna í bónus. Satt að segja finnst mér þetta eins og út úr skáldsögu eftir Halldór Laxness. Ég velti fyrir mér hvert við erum komin ef þetta er umgjörð kjarabaráttunnar. Hæstv. forsætisráðherra hefur oft haft uppi góð orð um að mikilvægt sé að leita leiða til að hækka lægstu laun en þeir tónar hafa líka heyrst frá ríkisstjórninni að það sé ekki hennar að greiða fyrir kjaraviðræðum. En stjórnvöld eiga í raun og veru í kjaraviðræðum í annarri deilu sem nú stendur yfir sem er deila BHM og þar erum við þegar farin að sjá afleiðingar af verkfallsaðgerðum. Það er rætt um það að öryggi sjúklinga á Landspítalanum sé ógnað, við horfum fram á það að ef aðilar að Starfsgreinasambandi Íslands samþykkja að ráðast í aðgerðir muni þær hefjast í lok þessa mánaðar. Þær aðgerðir munu hafa gríðarleg áhrif til að mynda á ferðaþjónustuna, hafa áhrif á alla veitingastaði í landinu ef af verður.

Ég hef þungar áhyggjur af stöðu mála. Nú berast af því tíðindi að Samtök atvinnulífsins eigi von á því að stjórnvöld muni koma með eitthvert útspil. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra: Er eitthvert slíkt útspil í undirbúningi? Hæstv. ráðherra hefur nefnt að hugsanlega kunni eitthvað að verða á sviði húsnæðismála í fyrri fyrirspurnum mínum um þetta mál. Hvað munum við sjá? Það er gríðarlega brýnt að aðgerðir BHM muni ekki halda áfram og stigmagnast og við horfum upp á enn þá meiri röskun á heilbrigðisþjónustu landsmanna, svo dæmi sé tekið, og það er gríðarlega mikilvægt að stigið verði inn með einhverjum hætti þannig að við sjáum ekki heldur aðgerðir stigmagnast á einkamarkaði.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Á hverju er von af hálfu stjórnvalda?