144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

framlag ríkisstjórnarinnar í kjaraviðræður.

[10:35]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir allt sem hv. þingmaður sagði um stöðuna á vinnumarkaði. Ég deili áhyggjum hennar af þeirri stöðu. Það er margt sem gerir hana erfiða og flókna en þó eru ýmis sóknarfæri, það má ekki gleyma því. Það má heldur ekki gleyma því að ástæðan fyrir því að þessi staða er uppi er að menn telja núna loksins að eitthvað sé til skiptanna, það sé eitthvað að hafa út úr kjarasamningum. Þá virðast áhyggjur af því að hópur viðkomandi dragist aftur úr verða ráðandi svoleiðis að það er mjög mikilvægt, eigi að nást samkomulag, eigi mönnum að takast að leysa úr stöðunni, að traust skapist milli hópa, traust um að ávinningnum verði skipt á sanngjarnan hátt. Þess vegna er ástæða til að taka undir athugasemdir hv. þingmanns um hversu óæskilegt og raunar bara afleitt á allan hátt það er þegar á sama tíma er farið í tugprósentahækkun á stjórnarlaunum til dæmis, ekki bara í því tiltekna fyrirtæki sem hv. þingmaður nefndi því að við höfum séð ýmis dæmi um slíkar hækkanir á stjórnarlaunum annars staðar að undanförnu.

Svo ég komi mér að spurningu hv. þingmanns um aðgerðir og aðkomu stjórnvalda þá höfum við lýst því yfir að við séum tilbúin að leggja ýmislegt á okkur megi það verða til þess að greiða fyrir kjarasamningum. Stjórnvöld eru hins vegar ekki reiðubúin til þess að kasta aðgerðum á verðbólgubál ef menn semja á þann hátt að hér megi gera ráð fyrir að verðbólgan fari á fullan skrið, þ.e. við viljum ekki fóðra verðbólgusamninga. Ef menn sjá hins vegar fram á að það náist sem kalla mætti stöðugleikasamningar er ríkisvaldið opið fyrir ýmsum leiðum sem að sjálfsögðu yrðu unnar í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Við mundum ekki verða fyrri til að segja: Það verður þetta og ekkert annað, heldur miklu frekar ráðfæra okkur við aðila vinnumarkaðarins og sú vinna er raunar þegar hafin. Menn eru byrjaðir að hittast og skiptast á skoðunum.