144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

framlag ríkisstjórnarinnar í kjaraviðræður.

[10:39]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Stjórnvöld þurfa að sjálfsögðu að sjá til lands í þessum viðræðum áður en hægt er að meta hvaða aðgerðir nýtast best. Raunar þarf að sjá til lands svo hægt sé að meta hvort aðgerðir geti hreinlega verið skaðlegar og ýtt undir verðbólgu eins og ég lýsti áðan ef stefnir í það sem kalla mætti verðbólgusamninga. Þess vegna þurfa menn að hafa einhverja hugmynd um að samkomulag náist og hvert stefnir svoleiðis að aðgerðir stjórnvalda geti virkað sem best til að bæta enn ráðstöfunartekjur og auka kaupmátt landsmanna. En af því að hv. þingmaður nefndi að eitt af því sem hefði verið til skoðunar væri breytingar á sköttum eða tollum og taldi það ekki henta fyrir lægri tekjuhópana þá er ég algjörlega ósammála hv. þingmanni um það. Hæstv. fjármálaráðherra hefur til dæmis nefnt barnaföt, tolla eða skatta af þeim. Breytingar þar á eða lækkun mundi fyrst og fremst gagnast fólkinu sem er með lægstar tekjur (Gripið fram í: Tekjuskatts.) vegna þess að það fólk getur ekki ferðast til útlanda og keypt barnafötin þar. Þar er líka kostnaðurinn við fatakaupin hlutfallslega miklu meiri en (Forseti hringir.) hjá þeim með hærri tekjur.