144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

staðan á vinnumarkaði.

[10:41]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég ætla að vera á sömu nótum og eiga orðastað, eða öskra og æpa í tómri geðshræringu, við hæstv. forsætisráðherra, að vanda, um kjaramál og ástandið á vinnumarkaði. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram, ástandið er grafalvarlegt. Það eru gríðarlegar kröfur um kauphækkanir. Þær eru skiljanlegar, sérstaklega hvað varðar lægstu launin. Stjórnendur stórra fyrirtækja senda stríðshanska út í andrúmsloftið með óhóflegum hækkunum á eigin kjörum. Við erum að horfa svolítið á gamla tíma, við erum að horfa á vinnumarkað þar sem ríkir stríðsástand og menn eru kannski ekkert endilega að horfa á heildarhagsmuni til langs tíma. Það er kannski vegna þess að það er mikil reiði í samfélaginu og ríkjandi tortryggni. Mér finnst það, a.m.k. að hluta til, vera áfellisdómur yfir ríkisstjórninni. Ég horfi á það að 1990 voru gerðir hinir svokölluðu þjóðarsáttarsamningar. Þeir voru eitt stærsta afrek í kjaramálum, ef ekki stærsta, í þessu samfélagi. Síðan þá hefur sama hugsun, þjóðarsáttarhugsunin, ráðið för við gerð kjarasamninga. Aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld hafa lagst á eitt í þeirri meginhugsun að tryggja stöðugleika og kaupmáttaraukningu til langs tíma.

Spurning mín til hæstv. forsætisráðherra er einfaldlega þessi: Erum við ekki bara að horfa á það á vinnumarkaði að þjóðarsáttarhugsunin er dauð? Er það ekki mikið áhyggjuefni? Og er það ekki einfaldlega kalt mat og þarf ekki að takast á við það? Og þá hvernig?