144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

staðan á vinnumarkaði.

[10:43]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ef ég geri mér réttar hugmyndir um hvað hv. þingmaður á við með þjóðarsáttarhugsuninni get ég engan veginn tekið undir það að hún sé dauð. Hún er nefnilega sérstaklega mikilvæg núna þegar menn sjá fram á tækifæri til að halda áfram að auka kaupmátt umtalsvert, en það hangir á því að menn nái saman um réttláta skiptingu þess efnahagslega ávinnings sem hefur verið að myndast í samfélaginu að undanförnu. Þess vegna þurfum við sérstaklega á þjóðarsáttarhugsuninni að halda núna. Ég tel raunar að hagsmunirnir af því að menn nái slíkri hugsun eða nái að hafa hana leiðandi séu það miklir að við hljótum að gera ráð fyrir því að það verði hægt að ná saman um það. Svarið er því afdráttarlaust: Nei, þjóðarsáttarhugsunin er ekki dauð og má ekki vera það.