144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

afnám hafta og staða heimilanna.

[10:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Fyrst aðeins varðandi þá hópa sem sagðir eru hafa verið skildir eftir. Nýlegir útreikningar hafa sýnt fram á að þeir sem hafa notið mestrar kaupmáttaraukningar eru tekjulægstu hóparnir. Ég vænti þess að hv. þingmaður sé ekki að kalla eftir sérstökum aðgerðum fyrir tekjuhæstu hópana.

Aðeins varðandi höftin og samráðið, við höfum haft þennan samráðsvettvang stjórnmálaflokkanna og ég hef bundið vonir við að hann muni, eins og hann hefur gert hingað til og að hluta til á síðasta kjörtímabili, gagnast til þess að deila upplýsingum sem kannski er óheppilegt að við séum að taka inn í þingsal. Vandi síðustu ríkisstjórnar varðandi haftaafnámið var kannski ekki síst í því fólginn að flokkarnir sem stóðu að þeirri ríkisstjórn höfðu gjörólíka sýn á möguleika okkar til að losna undan höftum. Annar flokkurinn taldi raunhæft og mögulegt að gera það með íslensku krónuna sem grunn, hinn flokkurinn lýsti því margítrekað hér yfir að það væri ekki hægt án þess að ganga í samstarf við önnur Evrópuríki í myntbandalaginu. Í ræðu hv. þingmanns fannst mér gæta ákveðinnar aukinnar bjartsýni á að þetta væri í raun og veru hægt án þess að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru sem eru í mínum huga jákvæð tíðindi. Þá erum við fleiri að verða sammála um að þetta er raunverulega hægt. Verkefnið er þá eiginlega að aftengja sprengjuna, losa um spennuna sem fylgir óvissunni sem leiðir af slitabúunum og þeirri staðreynd að þrátt fyrir að þau hafi haft núna bráðum sjö ár eru þau ekki búin að ljúka nauðasamningagerð og koma fram með raunhæfar hugmyndir sem hægt er að samþykkja í Seðlabankanum varðandi útgöngu og útgreiðslu til kröfuhafa.

Við erum komin langt á veg með þessa vinnu. Ég er bjartsýnn eins og forsætisráðherra á að við (Forseti hringir.) getum á þessu ári gripið til aðgerða sem munu vera lykilaðgerðir til að leysa höftin.