144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

afnám hafta og staða heimilanna.

[10:55]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þessi ríkisstjórn hefur ekki svarað þeirri spurningu hvað á að gerast þegar höft hafa verið afnumin. Það var hins vegar gert af síðustu ríkisstjórn með því að leggja af stað í þann leiðangur að athuga hvort Evrópusambandsaðild væri eitthvað sem þjóðin mundi samþykkja í þjóðaratkvæðagreiðslu og það væri þá svarið við hvað ætti að gerast. Við höfum ekkert heyrt frá þessari ríkisstjórn um það hvaða peningastefna verði hér rekin þegar menn hafa lokið við að afnema höft.

Það sem hæstv. ráðherra gerði ekki var að svara spurningu minni um það með hvaða hætti þessi ríkisstjórn ætlar að verja heimili þessa lands gegn því að hér verði fall á gengi krónunnar vegna þess að það mun hitta þá hópa verst fyrir sem núna standa í verkfallsaðgerðum, í baráttu fyrir bættum kjörum sínum og eru að reyna að ná eyrum þessarar ríkisstjórnar sem virðist ekki heyra hvað verið er að kalla til hennar. Þessir hópar verða að fá skýr svör um það hvað þessi ríkisstjórn ætlar að gera til að verja þá fyrir afleiðingum af því (Forseti hringir.) sem verður við afnám hafta. Ég vil (Forseti hringir.) fá svar við þeirri spurningu hvort til greina komi að aftengja vísitöluna eða fara í aðrar beinar aðgerðir.