144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

uppgjör þrotabúa föllnu bankanna.

[11:03]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að fagna þeim merku tímamótum sem hér urðu þegar hv. þingflokksformaður Samfylkingarinnar lýsir því yfir að það hafi verið mistök að aftengja ekki verðtrygginguna eftir fjármálahrunið. Það voru þá mjög dýr mistök og afleiðingarnar er enn verið að fást við, en meðal annars hefur verið fengist við þær með gríðarlega umfangsmikilli aðgerð, sem var leiðrétting verðtryggðra fasteignalána. Þau fyrirheit sem voru gefin í sjónvarpsþætti, sem hv. þingmaður vísaði til, hafa því ýmist ræst eða eru að rætast þó að ýmsir, ekki hvað síst úr flokki hans, hafi haft um það miklar efasemdir á sínum tíma.

Hvað varðar spurninguna um hvort ekki þurfi sérstakar aðgerðir samhliða afnámi eða afléttingu hafta til að verja almenning fyrir hækkun verðlags þá er það akkúrat það sem verið er að gera eins og ég lýsti hér í fyrra svari. Um það snúast þessar aðgerðir ekki hvað síst að verja almenning fyrir því að verðlag hækki í landinu.