144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[11:20]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er um gríðarlega stórt mál að ræða, mjög mikil verðmæti, mikla hagsmuni, stórar undirliggjandi spurningar sem blasa við um réttlæti og sanngirni.

Okkur í Bjartri framtíð er svolítið umhugað um að við notum það tækifæri sem felst í makrílnum, í þessum nýlegu verðmætum, þó að oft áður hafi verið veiddur makríll við Íslands strendur, til þess að gera þó ekki væri nema tilraun til að búa til réttlátari og hagkvæmari úthlutun á aflaheimildum, á kvóta, en við höfum búið við í fiskveiðistjórnarkerfinu á undanförnum áratugum. Við mundum vilja hámarka arðinn af því fyrir þjóðina og reyna að hámarka líka arðinn af afurðinni fyrir þá sem standa í útgerð.

Mig langar að eiga orðastað um þetta við hv. þm. Jón Gunnarsson, sem er nú þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður atvinnuveganefndar. Eru ekki markaðslausnir og samkeppni bestu leiðirnar til þess að ná fram hámarksarði fyrir þjóðina og útgerðina í þessum efnum? Við veltum því fyrir okkur hvort það væri ekki miklu betra að selja þær á uppboði í staðinn fyrir að útdeila þessum aflaheimildum. Ég veit að það eru ákveðnar lagalegar hindranir, en að mínu viti er hægt að sníða leiðir til þess að bjóða upp þessar aflaheimildir eftir ýmsum aðferðum þannig að lögmál markaðarins og samkeppni stjórni verðinu á veiðiheimildunum og þar með verður arðurinn til þjóðarinnar (Forseti hringir.) hámarkaður og útgerðirnar geta lagað sig eftir því og náð hámarksarði. Er það ekki besta leiðin? Af hverju er hún ekki skoðuð?