144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[11:36]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst margt merkilegt í prýðilegri og málefnalegri ræðu hv. þm. Jóns Gunnarssonar. Til að byrja með vil ég vekja eftirtekt á því að hv. þingmaður virðist vera í grundvallaratriðum á móti einum lykilþætti frumvarpsins, eða ég skildi hann þannig að hann væri að segja að að minnsta kosti tilteknir útgerðarflokkar innan makrílflokks sjávarútvegsins mundu ekki ráða við það 18 kr. veiðigjald sem þeir þurfa að borga samtals. Ég heyrði ekki betur en að hv. þingmaður væri að segja að það þyrfti að skoða sérstaklega í nefnd. Er það þá þannig að formaður nefndarinnar er ósammála þessum lykilþætti hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra?

Svipull er sjávarafli, og það er því miður þannig að það eru breytingar í hafinu sem kunna að leiða til þess að makríllinn hverfi aftur héðan fyrr en varir, það getur vel gerst. Menn þurfa að vera búnir undir það. Menn hafa nú þegar fjárfest mikið, sagði hv. þingmaður, og réttilega gat hann þess að íslenskur sjávarútvegur væri sá besti í heimi vegna þess að hann er markaðsdrifinn og þar hefur ríkt mikil samkeppni. Eins og hv. þingmaður veit hefði ég gjarnan viljað fara þá leið að allur kvóti væri settur á markað og markaðurinn stýrði þessu algjörlega, en það eru margir gallar á því eins og til dæmis sá galli sem við sjáum oft að það leiðir til samþjöppunar og gerir það að verkum að kannski heil svæði tapa frá sér aflaheimildum.

Ég held hins vegar að þau rök standist ekki sem hv. þingmaður færði hér fyrir því að ekki væri hægt að stíga það skref núna og benti á að menn hefðu fjárfest mjög mikið. Eðli greinarinnar er þannig að ég tel að akkúrat hin stóru og sterku fyrirtæki stæðu best að vígi og það væri bara sjálfsagt að þau fengju að ráða verðinu með innbyrðis keppni. En þá komum við hins vegar að sama galla sem eru hinir litlu útgerðarflokkar. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að styrkja og ýta undir möguleika smábátanna til þess að veiða makríl og bara til að gera langa sögu stutta langar mig til þess að spyrja hv. þingmann: Af hverju erum við með þetta hlutfall í það, (Forseti hringir.) 5,3%? Af hverju gæti það ekki verið 12% eða 18%? (Forseti hringir.) Við erum að koma að borðinu núna. (Forseti hringir.) Nú er verið að loka greininni í fyrsta skipti.