144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[11:40]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að beita eigi lögmálum markaðarins eins og hægt er til þess að auka hagræði og afrakstur þessarar greinar. Þó hef ég líka alltaf sagt að ég vilji eigi að síður tryggja að hluti auðlindarinnar standi strandbyggðunum til ráðstöfunar, eitthvert tiltekið lágmark til þess að tryggja að þar verði atvinna ekki í sumum tilvikum bókstaflega flutt í burtu. Ég tel ekki að það sé ósamræmi millum þessara tveggja sjónarmiða minna.

Að því er varðar síðan stöðuna núna erum við nú í fyrsta skipti að loka þessu kerfi í reynd og núna geta menn bókstaflega gengið út úr því kerfi með miklar fjárhæðir, þeir geta framselt aflaheimildir sínar. Ég skil frumvarpið þannig að þetta séu nú meira en sex ár. Það þarf að segja þessu upp með sex ára fyrirvara, þetta framlengist sjálfkrafa ár hvert nema það sé gert.

Aftur að smábátunum. Ef menn vilja horfa til reglna og þess að lög gildi o.s.frv. — bíddu, er það ekki þannig að smábátarnir fá miklu hærra hlutfall af þorskaflanum? (Forseti hringir.) Af hverju getum við ekki látið þá fá sama hlutfall af makrílaflanum?