144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[11:57]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Aðeins varðandi það sem hún kom inn á í fyrri hluta ræðu sinnar, um umboðsmann Alþingis og það álit sem vísað er til í framsögu minni og kemur einnig fram í greinargerðinni, þá fjallar umboðsmaður ekkert um það hver á auðlindina í raun og veru. Hann fjallar fyrst og fremst um hina lagalegu hlið og þá skyldu sem hafi stofnast eigi síðar en 2011, að samkvæmt þeim lögum sem gilda í landinu skyldi hlutdeildarsetja makríl eða setja sérlög, fara einhverja aðra leið. Það var ekki gert af fyrrverandi ríkisstjórn heldur ákvað hún að stýra veiðunum með reglugerðum sem umboðsmaður taldi að ekki hefði átt að gera. Sú skylda hefði skapast árið 2011, miðað við þann lagaramma sem við erum með í landinu, að hlutdeildarsetja makríl.

Við því er meðal annars verið að bregðast og hins vegar því sem stendur í stjórnarsáttmálanum að við ætlum að nýta það kerfi sem við höfum notast við, aflamarkskerfið, til að stýra veiðum og þar með úthluta í hlutdeildum til fiskiskipa stofnum sem við veiðum við Ísland. Frumvarpið er algjörlega í þeim anda, tekur annars vegar tillit til þeirrar skyldu sem álit umboðsmanns segir til um og hins vegar stefnu ríkisstjórnarinnar um hvernig með skuli fara. Þar með er það einfaldlega ekki á minni könnu að fara með uppboðsleið eða tilboðsleið eða einhverjar aðrar leiðir. Hefðu fyrrverandi stjórnvöld, og þeir flokkar sem sumir hverjir hafa komið upp og kallað eftir slíku, viljað fara þá leið er nokkuð augljóst að það var á árinu 2010 og 2011 sem þeir flokkar hefðu átt að gera það. En það gerðu þeir ekki.