144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[12:05]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurningarnar. Ég tel að við þurfum alltaf að haga okkur skynsamlega í þessum sal og við verðum að sjálfsögðu að skoða þær lagasetningar sem við erum að gera núna með tilliti til afleiðinga sem þær geta haft aftur og þess hvað gert hefur verið áður og allt það. Að því sögðu held ég samt að við höfum ekkert hér að gera ef þetta er allt saman greypt í stein, þá er verkefnið bara búið, þá erum við með lög sem gilda til eilífðarnóns.

Að sjálfsögðu höfum við frjálsar hendur til að aðlaga lög að því samfélagi sem við viljum byggja hverju sinni. Og vonandi er það þannig í huga flestra þingmanna að samfélagið breytist og við reynum að bæta það í leiðinni.

Varðandi samþjöppun á aflaheimildum og spurninguna um það hvort hún verði ekki meiri með þessari kvótasetningu er algjörlega sammála hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, það er auðvitað það sem fyrir liggur. Samþjöppunin er nú þegar mjög mikil. Það eru stærstu útgerðirnar sem veiða makríl. Þær gera það vel og fá mikið fyrir. Við sjáum tölurnar frá HB Granda og þeir fá stærstan hluta af þessu. Stóru fyrirtækin eru í mestum færum til að kaupa upp hinar heimildirnar þannig að þetta fer á einn veg, ég held að það sé alveg ljóst.