144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[12:08]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns gagnvart því að sagt hefur verið að 10 krónur eigi að dekka það að menn komist inn í greinina og til þess að menn komist inn í kvótakerfið í stóra fiskveiðistjórnarkerfinu þurfa menn að borga hátt í 3.000 kr. fyrir kíló af þorski, af varanlegum heimildum, til samanburðar á þessu. Hvað segir hv. þingmaður um slíkt?

Aðeins varðandi hugmyndir hv. þingmanns um að bjóða út þennan afla. Sér hún fyrir sér að það sé gert á milli útgerðarflokka, að því sé skipt eitthvað upp? Ég hef talað fyrir því að boðið væri upp á leigupotta af hálfu ríkisins þar sem skipt væri í þrjá útgerðarflokka og að gjaldið gæti verið hlutfall af aflaverðmæti upp úr sjó til að mæta mismunandi útgerðarflokkum. (Forseti hringir.) Mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns til þess.