144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[12:26]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekkert feiminn við það og hef ekkert verið feiminn við að gera grein fyrir minni tengingu inn í sjávarútveginn. Ég er vel tengdur inn í smábátaflotann. Ég er tengdur inn í bolfisksflotann, á þar hlut í stóru fyrirtæki eins og flestir vita. Ég hef ekkert verið að fela það og tilkynnti hérna á fyrstu dögum þingsins að sjávarútvegurinn væri mér mjög skyldur og tengdur. Ég hef verið ófeiminn við það og tjáði þingheimi jafnframt að ég væri alveg ófeiminn við að tjá mig hér um þau mál sem ég teldi mig hafa þekkingu á. Ég er búinn að vera til sjós og ég er búinn að vera útgerðarmaður. Ef menn vilja einhverjar frekari upplýsingar um það er það velkomið.