144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[12:28]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Í siðareglum sem er verið að vinna á Alþingi, og hefur einmitt verið kvartað undan af Greco sem hefur kallað eftir að þessar siðareglur séu kláraðar, við erum komin langt umfram frestinn, kemur meðal annars fram að þingmenn skuli vekja athygli á öllum hagsmunum sem máli skipta með yfirlýsingu við meðferð máls á þingi eða í nefndum þingsins. Það er því gott að þingmaðurinn sé tilbúinn til þess.

Hann ætti kannski að taka til þess líka að þar kemur fram að þingmenn skuli forðast árekstra á milli raunverulegra eða hugsanlega mögulegra efnahagslegra, viðskiptalegra eða fjárhagslegra og annarra hagsmuna. Þingmaðurinn getur gert frekar grein fyrir því hverjir hans persónulega fjárhagslegu hagsmunir væru af því að frumvarpið yrði samþykkt eins og það liggur fyrir þinginu núna.