144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[12:30]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hv. þingmaður hafa talað ansi mikið í kross í þessum málum. Hann fagnar þessum samningum, segir að þeir séu góðir miðað við stefnu hans flokks, sem ég veit alveg að er kvótasinnaður og framsalssinnaður, en gagnrýnir aftur á móti að það sé verið að hlutdeildarsetja smábáta og talar um að þeir fái of lágt hlutfall. Hve hátt hlutfall smábáta í þessari kvótasetningu gæti hann sætt sig við til að vera fullkomlega ánægður með þetta frumvarp?

Mig langar líka að heyra viðhorf hans gagnvart forsvarsmönnum Landssambands smábátaeigenda sem segja að þetta sé í raun rothögg fyrir greinina. Sér hann fyrir sér möguleika á nýliðun eftir að búið er að kvótasetja þetta? Hvernig tekst þá öðrum að komast inn í greinina miðað við aðstæðurnar þarna, að þurfa að kaupa af öðrum og greiða ríkinu afgjald plús veiðigjald? Hvaða möguleikar eru á nýliðun ef það er búið að loka þessu kerfi eins og það er?

Mig langar líka að heyra viðhorf hans gagnvart því að í kvótakerfinu í dag borga menn hátt í 3 þús. kr. fyrir varanlegan kvóta í þorski, en þeim sem hafa verið fyrir undanfarin ár með viðmiðun er gert að greiða 10 kr. Finnst honum sem markaðslega sinnuðum manni það eðlilegur munur? Telur hann rétt að þeir sem eru í smábátagreininni og kannski hrekjast út úr þessum rekstri fái sisona fleiri tugi milljóna fyrir að hætta?