144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[12:35]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns gagnvart þeim hugmyndum sem ég hef viðrað um leigupott, að aflaheimildir séu leigðar út, skipt í þrjá flokka og að afgjaldið sé hlutfall af aflaverðmæti upp úr sjó. Hvað finnst honum athugavert við það? Eða getur hann skrifað upp á að það sé hægt að fara þá leið til að hafa líka þennan sveigjanleika sem hann talar um, að makríllinn sé ansi færanlegur í lögsögunni?

Mig langar líka að heyra viðhorf hans gagnvart þessari kvótasetningu, hvort hann telji að þá myndist réttur til að fá bætur, samanber skel- og rækjubætur, ef þetta ólíkindatól mundi hverfa úr íslenskri lögsögu, sem við viljum auðvitað ekki, eða breytast, að hann færi frá ströndinni og væri það langt frá landi að eingöngu uppsjávargeirinn gæti sótt hann. Væri þá eðlilegt að smábátar færu fram á bætur?