144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[12:38]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í tilefni af síðustu orðum hv. þingmanns spyr ég líka: Gerir hann þá ráð fyrir því að miðað við það kerfi sem er sett upp í þessu frumvarpi muni smábátarnir unnvörpum reyna að koma kvótanum af sér og selja hann? Telur hann það eins og um frumvarpið er búið?

Hv. þingmaður gerði Evrópusambandið lítillega að umræðuefni. Ég er þeirrar skoðunar að ef við hefðum verið í Evrópusambandinu hefðum við kannski verið búin að semja fyrr og hugsanlega um stærri hlutdeild til handa Íslendingum en ágætur hæstv. sjávarútvegsráðherra samdi í reynd um við Evrópusambandið í fyrra þó að Norðmenn hafi síðan gert sig að fótakefli til að það næði að raungera þá samninga.

Hv. þingmaður talaði líka um að menn mættu ekki sjá ofsjónum yfir því þó að útgerðarmenn sýndu framtak og nýttu sér matarholurnar sem gæfust. Vissulega voru það útgerðarmenn sem hófu veiðarnar á makrílnum og byrjuðu 2004–2005 að veiða fyrst 350 tonn, 400 tonn og tífölduðu það á einu ári, en við munum hvernig þær veiðar voru. Þær voru ólympískar og það var síðasta ríkisstjórn sem hafði vit fyrir útgerðarmönnunum með reglusetningu sem leiddi til þess að þeim var beinlínis skipað að veiða hann til manneldis. Áður hafði það bakað Íslendingum ansi slæmt orð í alþjóðlegum fjölmiðlum sem sýndu fram á með hvaða hætti við fórum þá í þessa auðlind. Það var óvart ríkisstjórnin sem síðast sat sem kom sæmilegu viti í þetta.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann um orð hans um hlutdeildarsetningu þessara 5% innan smábátakerfisins: Telur hann þá að það væri bara betra fyrir þá og þjóðina í heild upp á afrakstur að það yrði engin hlutdeildarsetning heldur ólympísk sókn? Það er sjónarmið. Ég tel að það eigi að hlusta á hv. þingmann því að hann hefur vit á þessum málum.